Með einkaflugvél norður á Akureyri!

Það var nú nokkuð skondið beina flugið okkar frá Ísafirði til Akureyrar. Reyndist vera einkaflug – fyrir utan fullorðna konu sem við í góðsemi okkar leyfðum að fljóta með. Fyrstu vístbendingarnar um að þetta yrði einkaflug voru nú þegar farið var að “hlaða” vélina – það voru nákvæmlega 3 ferðatöskur, einn stór IKEA poki og járningataska sem bíllinn trillaði með upp að vélinni. Það var nú allt og sumt og tók ekki langan tíma að koma því fyrir. Flugfreyjan nennti ekki einu sinni að nota hátalarakerfið til að bjóða okkur velkomin og segja frá öryggisatriðum heldur stóð hún bara við hliðina á okkur og þuldi upp það helsta. Fengum auðvitað fyrirtaks þjónustu en þó gafst ekki mikill tími til að láta stjana við sig þar sem flugið tók AÐEINS 40 MÍNÚTUR. Þetta voru því notarlegheit frá upphafi því notarlegheitin héldu áfram þegar komið var heim á Hótel Mömmu. Menn sváfu nú misjafnlega lengi en nefnum þar engin nöfn en tvö svefnpurkunöfn byrja á V.

Á fimmtudeginum, 1. maí gerðum við Viktoría mikla leit að opinni sundlaug. Reiknuðum bara með að Sundlaug Akureyrar væri opin en það reyndist ekki svo – auðvitað bara jákvætt að lokað sé á þessum degi en það einhvernveginn var ekki í hausnum á manni. Glerársundlaug var líka lokuð en við vorum komnar heim þegar mamma benti okkur á Þelarmörk og þar komumst við í sund, nutum okkar í heitri lauginni og Viktoría fór nokkrar ferðir í rennibrautina – sjálf ákvað ég að sleppa því – reyna að vera pínu virðuleg “)

Vorum mátulega lengi og auðvitað glerfínar eftir baðið þegar við fórum á tónleika til að hlusta á Örnu Guðbjörgu spila á sínum fyrstu tónleikum – trommaði með stæl svísan sú. En það er ekki nóg að fara í sund og á tónleika. Sundferðum fylgir auðvitað ís. Það voru farnar ófáar ferðir í Brynjuís – einn á dag en ekki þar með sagt að sundferðirnar hafi verið jafn margar. Viktor varð hálf súr yfir því að fá ekki að fara 2svar einn daginn. Honum er nær að segja að Greifapizzur séu ekki góðar – kann ekki gott að me…éta.

Kíktum á ömmu í Rán svona til að hún gæti klappað á kúluna og heilsað upp á íbúann þar. Helgin snérist satt að segja svolítið mikið um sýningu á kúlunni sem fer óðum stækkandi. Hugrún vinkona er með samanburðarkúlu – 3 vikum á eftir mér. Svo voru forvitnar frænkur sem vildu sjá hvar í óskupunum svona lávaxin manneskja geymdi kúlu. Ótrúlegt en satt hún hangir þarna – mest öll framan á og ýmist hvort fólk telur það stelpu eða strákakúlu. Umslagið varð nefnilega eftir fyrir vestann svo það hefur ekki enn komist í geymslu til Ölfu.

Einkennilegt með hann Viktor. Þegar við förum norður þá dettur honum alltaf í hug að renna vestur í Fljót – eitthvað vitlaustar tengingar þar finnst mér. Hjá mér er að fara norður að fara á Akureyri en einhvernveginn hafa Fjótin læðst inn hjá honum. Hann fór um áramótin og aftur núna. Heilsaði upp á Sigga sem var með okkur í hestaferð og náði í þetta skiptið að fljóta með tveimur öðrum ferðafélögum úr margrómaðir hestaferð. Þeir skoðuðu hjá Sigga efnileg trippi og þvældust svo um sveitir landsins og dreifðu hestum vítt og breitt.

Þegar maður er svona merkilegur gestur á Norðurlandinu er auðvitað drifið í því að henda saman einni afmælisveislu þó afmælisdagurinn sé ekki kominn. Fengum þessa dýrindis veislu hjá Örnu og Ölfu. Fámennt og góðmennt – auðvitað með trommuundirspili af misjafnlega færum afmælisgestum.

Auðvitað lentum við svo í því á sunnudeginum að flugi til Ísafjarðar var frestað. Óhagstæð vindátt. Komumst nú reyndar að því seinna um kvöldið að það hafði lægt og flogið með alla blakarana milli Ísafjarðar og Reykjavíkur en ekkert verið að ómaka sig við að sinna leigufluginu. Einfaldlega ekki vélar og tími í það greinilega. En þannig græddum við auka nótt fyrir norðan og hver kvartar yfir því. Viktoría græddi meira að segja svo mikið að hún var send beint suður í stað þess að þurfa að fara með mömmu sinni keyrandi að vestan. Prinsessur eru og verða prinsessur – hvort sem það er fyrir tilviljun eða hvað.

Það er nú alltaf notalegt að koma heim aftur. Vestfirðir tóku á móti okkur með þessarri líka blíðu og nú vaknar maður við fuglasöng og lækjanið. Kominn sá tími að ég get bara rölt niður á veg til að ná rútunni. Var nú ekki fyrr mætt á svæðið en ég fékk fyrsta vá-ið við kúlunni. Það eru víst alveg tveir mánuður eftir og ég get ekki lengur kvartað yfir að kúlan sjáist ekki.

Jæja, verður ekki meira sagt í þetta sinn. Fataskápurinn bíður uppsetningar – mikið rosalega hlakka ég til.Fjölgunin er hröð í fjárhúsum og nú þarf bara að drífa upp símaskrána svo fleir lömb fái nú nöfn “)Kveðja, Signý 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hæ!

Bara láta vita að ég leit við hjá þér. Þessi hefði mátt vera lengri, en góður samt. bj.

P.s. Varstu búin að mynda húsið þitt, frá sama stað í sömu stefnu og er á fyrstu myndinni þinni? Ég ætlaði nú að biðja um þetta í janúar. Þú ert vonandi ekki búin að rífa bygginguna sem stendur í bakgrunni? :) bj.

P.s.2. Hvað er þetta með búfjárnöfnin? Í "minni sveit" voru á annað hundrað ær og þær allar þekktar með nafni (og lömbin þeirra einnig þó mæður þeirra væru ekki nærri). Eru svo ekki lambadrottningar og -kóngar í þinni sveit? :) bj.

bj. (IP-tala skráð) 9.5.2008 kl. 01:07

2 identicon

Bara að kvitta fyrir góð skrif :)  kv. ebj

EBJ (IP-tala skráð) 9.5.2008 kl. 08:42

3 identicon

Gott að lesa frá þér eins og fyrri daginn, hm nöfn á lömbum............. það er bara að lesa nafnabókina eða hvað.

Heyrumst, MA

Mamma (IP-tala skráð) 9.5.2008 kl. 15:40

4 Smámynd: Signý Þöll Kristinsdóttir

Ég bíð með að mynda húsið að utan þar sem enn er sillansi utan á og hef ekki áhuga á að hafa hann með á myndinni. Stefnt að því að hann fari í þessum eða næsta mánuði ")

Þarf greinilega að bæta mig með rollur og nöfn. Það er þó ljóst að Hreinn var lambakóngurinn en verð að viðurkenna að lamadrottninguna er ég ekki með á hreinu. Er svo ný í sveitinni að ég hélt að lamakóngur og -drottning væru fystu lömbin í allri sveitinni en ekki á hverjum bæ ") Alltaf lærir maður!

Signý Þöll Kristinsdóttir, 13.5.2008 kl. 11:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband