27.7.2009 | 11:45
Hvernig er það með þessa "fésbók"......
.....hefur hún yfirtekið allt. Voða 2007 að blogga en allir á fésinu. Nú er nóg að gera við að fylgjast með öllu þar og að auki koma inn myndum af dömunni á barnalandi.is. Þær má finna undir síðunni emblan.barnaland.is - ja, lykilorðið fæst með tölvupósti en fyrir þá sem hafa gaman að gátum þá geta þeir ráðið úr vísbendingunni: Stórbýlið ber fjölda nafna en nú dugar restin með smáum stöfum ")
Letikveðja, Signý
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.1.2009 | 13:01
Gleðilegt nýtt ár!!
Nýtt ár gengið í garð og óskum við Mið-Hvammsbúar öllum gleðilegs nýs árs og þökkum allt gamalt og gott!
Vorum um áramót í góðu yfirlæti fyrir norðan og stefnum suður á morgun. Unga daman sem var stóra fréttin um síðust jól naut nú jóla og áramóta alveg í botn - búið að koma henni upp á ís, barn sem ekki er einu sinni farið að borða almennan mat. Ekki annað hægt í annarri eins ísfjölskyldu og barnið fæðist inní - beggja vegna. Hún var líka voða hrifin af flugeldunum og fylgdist með þeim úr örugginu innan við rúðuna. Alveg stórhrifin! Hin daman í fjölskyldunni hún Perla kippti sér nú ekki mikið upp við þessi læti!
Vonum að þið hafið notið jóla og áramóta eins og við og að nýtt ár beri gæfu og gleði ")
Signý, Viktor og Margrét Embla
Bloggar | Breytt 5.2.2009 kl. 00:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
18.11.2008 | 15:09
Svei mér þá.....
.....ef ég er ekki barasta búin að gleyma hvernig á að komi inn nýjum færslum í bloggi. Síma og nettengingamál í Hvammi virðast ætla að verða sagan endalausa - nenni ekki einu sinn að tala um það.
Eins og er erum við mæðgur í heimsókn á Akureyri. Var farið að rukka um ungu dömuna og já mamman varð víst að fylgja með en pabbi gamli er heima með Perlu. Alltaf nóg að gera heima í sveitinni. Daman dafnar bara - fellingum fjölgar, kinnar stækka og hárið verður krullaðra og krullaðra með hverjum deginum. Set inn nokkrar myndir sem sanna það mál.
Látum það gott heita!
Signý og Margrét Embla
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
14.8.2008 | 12:53
Syndaselur
Agalegt að standa sig ekki í blogginu þegar allir bíða nýrra frétta. Hef líka miklað það fyrir mér að koma þessu öllu á blað því nú er ég alltaf að upplifa nýja - og að því mér finnst - ofur merkilega hluti.
Í stuttu máli sagt höfum við mæðgur það rosalega gott. Orðnar alveg ofurdekraðar eftir dvölina á spítalanum og fann ég mest fyrir því þegar ég þurfti sjálf - í fyrsta lagi að ákveða hvað ég átti að fá mér að borða - í öðru lagi að taka það sjálf til - og ganga frá! Ótrúlegar kröfur á mann. Komst þó fljótt upp á lagið með að redda þessu. Dásemdardísin líka komin upp á lag með það að gefa til kynna hvað það er sem hún vill. Heyrist vel á tóninum hvort um sé að ræða alvarlega svengd eða hvað - stundum vorkennir hún sér bara rosalega og það má greinilega merkja það!
Pabbinn hefur lítið haft tíma til að vera heima - svosum ekki þekktur fyrir að sitja lengi "aðgerðarlaus" og jafnan fljótur að finna sér eitthvað að gera og er þá horfinn. Ljósmóðirin sem kom til okkar í vikunni eftir að við komum heim og þekkir til kappa var nú ekkert hissa þó hann væri fjarverandi þegar hún kom. Á endanum vorum við svo bara sendar norður í land. Þar biðu auðvitað í ofvæni frænka og frænka en amman og afinn lögðu það á sig að keyra eftir okkur í Bjarkalund - ekki síður spennt að fá okkur. Viktor skutlaði okkur nefnilega í Bjarkarlund og dreif sig svo heim að bisast án þess að hafa nokkuð samviskubit yfir því að við værum einar heima. Daman var því komin tímanlega á sína fyrstu útihátíð - Ein með öllu á Akureyri. Sýndi það á þessu ferðalagi að henni líkar vel í bíl - svaf alla leið og var bara vakin til aðskipta á henni og drekka.
Fórum og kynntum nýjasta fjölskyldumeðliminn fyrir þeim elsta - ömmu í Rán. Fór vel á með þeim og sú stutta hæstánægð í fanginu á löngu. Amma notaði svo tækifærið þegar ég stóð með hana í fanginu að skoða hana á sinn hátt og leist vel á - dökki lubbinn nógu áberandi til að hún sæi hann. Samkvæmt heimildum ömmu er dásemdardísin barnabarn(abarn) nr. 30.
Viktor og Viktoría komu svo um Versló norður og skemmtu sér vel. Guðni Páll og Sonja birtust svo líka með alla sína hunda - 3 stykki - reyndar tvö sýnishorn að mínu mati - en allir gistu þeir með þeim í tjaldi!!! Viktoría naut góðs af því hversu fullorðin Arna Guðbjörg er orðin því hún skutlaðist með hana og Berglindi frænku í Tívolí - sem hinir meira fullorðnu voru ekki alveg í stuði fyrir. Rúllaði því náttúrulega upp daman sú. Eftir helgina skutust Vik og Vak svo vestur aftur en við mæðgur verðum eitthvað áfram á Akureyri. Skelltum okkur þó suður að kíkja á nýju íbúiðna hans Jóa en þau fengu afhent um mánaðarmótin. Ekki síður merkilegt tilefni að hitta hann Jökul frænda. Ég hitti hann síðast í skírninni hans en í öllum fréttum fengið að vita að drengurinn hafi stækkað helling - sem var eingin vitleysa. Hann er stór! Hjartað er þó lítið því smá öskur í litlu frænku skelfdi hann svo að hann fór að gráta. Kannski var það bara samúðarskæla. Dásemdardísin var að hitta stóra frænda í fyrsta sinn svo þetta var merkisatburður. Þriðja barnabarnið var svo með í för og því í fyrsta sinn sem sjá mátti þennan föngulega hóp saman. Auðvitað skellt í myndatöku og við nánari skoðun hafði mamma á orði að barnabörnin hennar væru ekkert lík - frekar en börnin hennar. Vísa í albúm merkt Reykjavíkurferð. Sýndi sú stutta enn og sannaði að hún kann vel við sig í bíl - svaf báðar leiðir með smá bleiuskipta-/drekkustoppi. Eins gott fyrir vestfirðing að vera vær í bíl enda langt í allar áttir!
Erum sem sagt enn á Akureyri og búið að spilla dömunni helling. Stækkar og mannast með hverjum deginum sem líður. Kinnarnar að verða vígalegar og allt sem "auga á festir" rækilega skoðað. Verður stundum alveg dauðþreytt á að horfa á alla þessa hluti í kringum sig en getur enganveginn hætt því fyrr en allt er fjarlægt og þá lognast hún útaf í vagninum. Sefur í þessum töluðu orðum óskup vært í vagninum sínum enda sýndi hún það í borgarferðinni að henni finnst vagninn bestur - óttarlega óvær þar til hún fékk að leggjast í vagninn hans Jökuls - sem er alveg eins og hennar - sofnaði þar og svaf lengi, lengi.
Segjum þetta gott í bili en látum vonandi heyra í okkur fljótlega aftur. Búin að setja inn fyrstu myndir af dömunni og frá Reykjavíkurferð. Eru til nokkrar myndir af henni!
Kveðja, Signý og fylgifiskur
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
12.7.2008 | 21:20
Dásemdardís
Já, það er komin í heiminn þessi dásemdardís! Fæddist á Heilbrigðisstofnuninni Ísafjarðarbæ 8. júlí 2008, kl. 20.18. Myndar stelpa með mikinn dökkan lubba, 3565g og 51 sm. Viðstaddir fæðinguna voru auðvitað pabbinn og svo var mamma svo heppin að vera hér enn og mikið afskaplega var gott að hafa hana líka. Þau spiluðu þetta vel saman hún og Viktor.
Sjálfri finnst mér þetta enn mjög óraunverulegt en fyrsta tilfinningin var nú að ég hlyti að vera hamingjusamasta manneskja í heimi. Ekkert sem toppar þessa tilfinningu. Svaf ekkert nóttina eftir að dásemdardísin fæddist enda allt of upptekin við að horfa á hana og dáðst að henni.
Hverjum er hún lík? Sjálfri sér!! Ég var alveg steinhissa þegar ég fékk hana í fangið - veit reyndar ekki alveg við hverju ég bjóst en í fyrsta lagi átti ég ekki von á þessum þessum lubba og svo var þetta bara alveg nýtt andlit. Við nánari skoðun hefur nú fundist lítið pétursspor í hökunni og það á pabbinn, hárlubbann líka því ég var hárlaus við fæðingu.
Erum enn hér á sjúkrahúsinu í góðu yfirlæti og við hliðina á okkur er stelpa sem fæddist 12 tímum síðar og 30g léttari. Þyngdarmunur sem sennilega skýrist á hárlubbanum. Dásemdardísin er í ljósum vegna gulu en allt á góðri leið. Fáum vonandi að fara heim á morgun enda báðar hressar.
Því miður get ég ekki sett einn neinar myndir - þó nóg sé af þeim. Allar fastar í myndavélinni þar til við komumst heim í kortalesarann. Alfa systir var búin að setja inn mynd af dísinni 2 tíma gamalli.
Bloggum því vonandi fljótt aftur ")
Kveðja, Signý og dásemdardísin
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
9.7.2008 | 14:53
Mynd af dömunni
Stóra stolta frænka fékk að setja eina mynd inn fyrir alla góðu vinina og ættingjana
Hér kemur mynd af dömunni dásamlegu. Hún er 14 merkur og 51 cm og er með dökkan lubba.
Bestu kveðjur, Alfa frænka
Nánari upplýsingar á : fsi.is og fara inn á nýburar á link til hægri
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
6.7.2008 | 20:48
Dagurinn runninn upp!
Jæja, þá er settur sónardagur runninn upp en allt rólegt enn. Foreldrarnir nú hvorugt þekkt fyrir mikla stundvísi en tveir mínusar gera nú plús. Það eina sem víst er að þetta kemur þegar það kemur.
Mamma kom á fimmtudaginn og er búin að hafa það voða gott í sveitinni. Alfa sendi með henni alveg hrikalega lítið og sætt heimferðarsett - auðvitað í ljósum hlutlausum lit þar sem umslagið er enn lokað.
Höfum tekið nokkra spretti í göngu en allt kemur fyrir ekki. Kúlan spennist en slaknar á henni jafn óðum. Nautntaseggur þarna inni sem ætlar bara að láta fara vel um sig sem lengst.
Höfum þetta ekki lengra í dag. Vonandi verða bara fljótt nýjar fréttir ")
Signý
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
27.6.2008 | 17:56
Jæja!
Ekki besti tíminn til að trassa blogg þegar flestir bíða eftir fréttum. Uppákoma í síðustu viku með bloggið situr nú ekkert í mér en nú er ég hætt í vinnu og hef því ekki jafn greiðan aðgang að tölvu með nettengingu - þess vegna fer ekkert inn. Sit nú í tölvunni hjá tengdó og ætla að reyna að fara yfir það sem helst er í fréttum.
Allt með kyrrum kjörum enn hjá bumbubúanum. Fengum fína skoðun síðast - blóðþrýstingurinn var farinn að hækka en komin í fínt stand á mánudaginn. Bumban farin að síga en svosum engin önnur merki um að eitthvað sé að fara að gerast.
Mamma, pabbi, Alfa og Arna komu - ja, það eru að verða tvær helgar síðan. Hossuðust eftir holóttum vegum og mér skilst að Ölfu hafi nú ekki alltaf staðið á sama með brattan á blessuðum fjallvegunum. Hótaði því að næst myndi hún bara fljúga - vildi nú ekki segja neitt en það eru fáir lofthræddir sem hóta því að fljúga á Ísafjörð. Hún leggur nú ýmislegt á sig til að hitta mann. Allt þetta fjölmenni sat nú ekki auðum höndum heila helgi og hentum við upp skiptiborðskommóðunni. Uppgötvuðum reyndar undir lokin smá mistök hjá okkur - en það var bara lélegum leiðbeiningum að kenna að það gerðist - nei, það var ekki pabbi sem sagði þetta en það hefði nú vel passað. Þegar setja átti hillurnar í kom í ljós að gögin stóðust ekki á enda höfum við víxlað ytri hliðunum - skildum reyndar ekkert í því þegar við settum bakhliðarnar í að úrtaka fyrir götin stóðst ekki á við götin á kommóðunni en redduðum því bara með að bora - og auðvitað líka bara fyrir hillurnar. Eins gott að kunna á borvél!
Allavegana - kommóðan komin saman og svo er ég búin að standa í ströngu við að strauja - rúmföt, lök, bleiur, samfellur og barnaföt - hugsaði nú með sjálfri mér að sennilega væri þetta í eina skiptið sem ég straujaði þetta allt - fengi bara að vera krumpað næst - hver veit þó. Hálf skrítið að setja svona lítil föt í þvottavélina. Hafði það á tilfinningunni að þetta myndi bara týnast þarna inni í þessarri stóru þvottavél. Þyrfti einhverja barbíþvottavél í svona. En það skilaði sér nú allt. Með struið þá er nú ekki margt í fataskáp okkar hjónaleysanna sem þarf að strauja svo í upphafi þurfti að grafa eftir straujárninu í kössunum. Rifjaðist reyndar upp fyrir okkur eftir nokkra kassa að sennilega hafi straujárnið verið skilið eftir hjá Guðna í Ásgarði en það dúkkaði nú upp gamalt straujárn sem hún Alma amma átti og það verður nú bara að segjast að það er hið fínasta straujárn - engin gufa en það kom ekki að sök - fínasta Rowenta straujárn.
Fórum í smá ferðalag með gestina og keyrðum upp í Ausudal sem er fyrir ofann bæinn. Útsýnið virkilega fallegt og meira að segja Loki fékkst meira að segja til að fara út í vatnið. Fundum þar með líka veginn sem keyrður verður daglega eftir 6. júlí því ef það er satt að holóttur vegur hjálpi til við að koma af stað fæðingu þá erum við vel sett. Rétt hjá bænum og nóg af holum.
Eitthvað hangir nú inni af myndunum sem skemmdu allt síðast. Einhverjar áhyggjur af pirringnum sá ég hjá nokkrum en ég sat í vinnunni og pikkaði inn - þegar allt hvarf svo vissi ég nú að ekki gæfist tími til að endurnýja það og síðasti dagurinn í vinnunni. Hálf skrítið að fara svona úr vinnunni - sagði við þær að ég kynni nú alveg að fara í sumarfrí en fæðingarorlof væri töluvert lengra en það. Er sem sagt búin að vera heima núna í viku og finnst það nú hafa liðið heldur hægt. Það á nú eftir að breytast þegar krílið mætir. Þá flýgur tíminn hef ég trú á.
Jæja, ekki meira í fréttum að sinni. Reyni að vera dugleg að setja inn - jafnvel þó ekki sé fimmtudagur. Allt komið úr skorðum með þau plön en auðvitað komi inn fréttir um leið og eitthvað gerist ")
Kveðja, Signý sveitakelling
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
19.6.2008 | 15:42
Arrrrg....
Hefnist sennilega fyrir það að hafa trassað bloggið. Var búin að skrifa helling og ætlaði að setja inn nokkrar myndir þegar allt hvarf! Hef því miður ekki tíma til að rifja þetta allt upp aftur núna og því verða helstu fréttir að bíða! Arrrrg......
Signý
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
29.5.2008 | 16:31
Endasprettur
Já þá er kominn fimmtudagur! Orðin hálf hugmyndasnauð þegar kemur að því að blogga núorðið.
Lífið gengur sinn vanagang, veðrið alltaf sumarlegra, rútuferðir í sínum föstu skorðum - að minnsta kosti að morgni, kúlan stækkar og framtakssemin á heimilinu alltaf sú sama.
Ástæðan fyrir því að meiri hreyfing á heimferðum mínum undanfarið er sú að nú styttist í að kúlubúinn farið að láta sjá sig - þó margir hvái þegar ég segi að 5 vikur séu eftir enn - finnst eins og kúlan sé farin að skaga það mikið fram! Það er nú alveg hellingur 5-7 vikur, allt eftir hentisemi ungans! Ég segi þá bara, hvar á maður að koma þessu fyrir ekki hærri en maður er. Kúlan situr vel framan á og leitar bara út. Við erum s.s. foreldrafræðslunámskeið sem við höfum verið að fara á í þessarri viku þar sem verið er að kenna á kúlubúann og allt sem honum fylgir.
Framkvæmdir á heimilinu í sama rólyndisgangi. Skápurinn er kominn upp og hann er óðum að fyllast af dóti. Þegar enn meira verður komið af því í skápinn ætti að hafa myndast rúm fyrir skiptiborðið og svo er von á sendingu að norðan, rúm o.fl. En mest er ég spennt yfir flutningsmönnunum. Mamma og pabbi ætla að koma keyrandi vestur færandi hendi enda er maður dekraður því pabbi var að gera við bílinn minn sem mér tókst svo snyrtilega að beygla - keyrði á álfasteinana fyrir utan húsið. Vona að þeir hafi fyrirgefið mér það.
Höfum þó verið að sýna húsið undanfarið en það eru margir spenntir að sjá hvernig til tókst og margir hverjir þekkja sögu hússins betur en við. Buðum í gær eldri hjónum sem eiga bústað í Hvammslandinu - hann er uppalinn þar - í kaffi og þau skoðuðu húsið hátt og lágt og sögðu okkur hvernig skipulagið hafi verið "í gamladaga". Helling búið að gera og annar eins hellingur eftir en það er allt sem má gerast smám saman. Voru þau bara hrifin af húsinu.
Enn sama sveitasælan í Dýrafirði. Get nú alveg vanist því að rölta svona niður á veg í góðu veðri til að ná rútunni. Það verður eitthvað áfram. Síðan verður það bara rölt með barnavagn um mela og móa.
Keyrðum fram á umferðaeftirlitið í Önundarfirði á leið okkar heim um daginn. Yfirleitt er það nú þeir sem stoppa mann en við stoppuðum sjálfviljug og röbbuðum við Sigga. Vorum meira að segja á sitt hvorum bílnum. Þar barst í tal fjölskylduhátíðin í Asparlundi enda hittist hópur í tiltekt þar í vikunni. Nokku víst að við mætum ekki því annað hvort verður unginn nýskriðinn úr egginu eða rétt um það bil að kíkja á nýja heiminn. Hver veit þó hvað það dregst ")
Af fuglum fjarðarins þá var ég eitthvað búin að tjá mig um Tjalda í Dýrafirði en nú get ég sagt ykkur frá gæsapari sem er meira en lítið vanafast. Verð alltaf vör við það þegar ég bíð eftir bílnum niðri við veg. Flýgur alltaf nokkra hringi áður en það sest á grasbala og svei mér þá alltaf á sama tíma. Þarf ekki lengur útvarpið í bílnum til að vita hvenær rútan fer af stað - get bara horft til himins!
Jæja, þarf að fara að æfa kúluna og svo fáum við síðasta skammtinn af foreldrafræðslunni strax eftir það. Nokkuð ljóst um hvað heimurinn snýst þessa dagana.
Kveðja, Signý
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)