Hæ hó jibbí jei og jibbí jei - það er kominn fi-immtudagur!

Hvað skyldi vera í fréttum í dag? Alveg ólm vil ég koma þeim á framfæri eftir viðbrögðin í síðustu viku. Virkilega gaman að fá svona "komment" á móti "). Ekkert nauðslynlegt að gera það alltaf en gaman þegar fólk lætur vita af sér. Fólk verður þó að gera sér grein fyrir að það var engin tilviljun að fimmtudagar urðu fyrir valinu - þegar líður að vori fjölgar fimmdudagsfríum og þegar maður setur sér markmið er maður auðvitað alltaf með einhver tromp upp í erminni ef þau skyldu nú ekki alveg ganga eftir - gæti farið á báða vegu - að meira verði skrifað vegna fimmtudagsfría eða þá að það verði notað sem afsökun fyrir að skrifa ekki!!

Svo ég hlusti nú á þá sem tjáðu sig síðast þá legg ég mig fram við að skrifa á fimmtudögum enda ekki ætlunin að ræna fólk fimmtudögum og hér eftir - fyrir þá sem ekki hafa tíma í að lesa langa pisla mun ég í byrjun segja frá því sem ég ætla að tala um og það nægir þá kannski sumum. Hinir sem hafa tíma lesa svo restina (hehehe)!

Inngangur. Í þessarri bloggfærslu ætla ég að fjalla um eftirfarandi þætti.

- 1. apríl: Náði að plata Viktor.

- Vatnslagnir í sveit: Þegar allt frýs gerir maður sér grein fyrir hversu háður vatni maður er.

- Sjómannskona og eldamennska: Hvað gerir sjómannskona ein yfir heila helgi og hvað eldar maður fyrir svanga sjómenn þegar þeir koma í land seint að kvöldi?

- Ferðalög framundan: Óvænt heimsókn og skírn í Reykjavík.

Pistill dagsins

Og þá hefst hinn eiginlegi pistill. Ég hreinlega gleymdi að segja frá því síðast að mér tókst að láta minn mann hlaupa 1. apríl. Þetta var svona tækifæri sem bara datt upp í hendurnar á mér og hefði verið þvílík synd að sleppa því. Eiginlega vara það fyrir einskæra tilviljun að það var á þessum degi sem það féll til en afskaplega heppilegt. Þannig var að helgina fyrir var 40 ára afmæli á Þingeyri og féll það í okkar hlut að sjá um salatið - óskup einfalt, blandað salat í poka, vínber og Feta-ostur. Var sko ákveðið að halda upp á afmælið með dags fyrirvara. Viktor tók þá eftir Feta-lukkuleik sem var í gangi og átti númerið að koma í ljós þegar krukkan yrði tæmd. Það var bara gert á staðnum og minn maður í eldhúsinu svo hann tók sig til og skrifaði niður númerin. Henti krukkunum reyndar í frágangi enda með númerin á blaði. Bað mig svo að tékka á mánudeginum, 31. mars, þegar ég kæmist á netið í vinnunni hvort nokkuð væri vinningur en auðvitað gleymdi ég því. Á þriðjudeginum hins vegar rak ég augun í miðann og fór á netið. Sá þar náttúrlega að ef væri vinningur á númerinu þyrfti auðvitað að framvísa krukkunni - þessarri sömu og Viktor var búinn að henda - í ruslagám á Söndum. Sló inn lukkunúmerin - tvær krukkur - og auðvitað var enginn vinningur. Það var sirka á þeirr stundu sem kviknaði á ljósaperunni með púkahornin. Var því fljót að senda honum sms í gegnum netið og sagði að það væri vinningur á öðru númerinu. Hann yrði að sækja krukkuna. Ekkert mál að plata svona í gegnum sms - gæti það aldrei beint í gegnum síma eða augliti til auglitis. Þá hringir auðvitað síminn - var í vafa hvort ég ætti að svara því ég vissi að ég kæmi strax upp um mig. Þá var Viktor kominn af stað að ná í krukkuna og það svosum nægði mér - hann var hlaupinn - var líka hvort eða er búin að sjá hann fyrir mér í huganum ofan í ruslagámi að leita að krukkunni. Benti honum þá á að það væri 1. apríl. Það versta við þetta var samt að ég var skjálfandi á beinunum það sem eftir var dags og fram eftir kvöldi því ég var svo viss um að hann myndi hefna sín rækilega - en þessi engill lét mig alveg í friði. Notaði nú samt tækifærið eftir að hann áttaði sig á hvaða dagur var og gerði tilraun til að narra samstarfsfélaga sína - sagði þeim að það væri rúsnnesk orrustuflaug á flugvellinum á Söndum - þeir yrðu að koma að sjá hana og þeir voru víst næstum komnir út þegar einn þeirra áttaði sig á deginum.

Vá, þetta var langt! En höldum ótrauð áfram.

Hafið þið gert ykkur grein fyrir hversu háð vatni þið eruð? Lenti í því um síðustu helgi að það fraus í lögninni að bænum og ekki vatnsdropa að fá. Síðan heyrir maður af herferð Unicef þar sem verið er að safna til að styrkja vatnsverkenfi í þróunarlöndunum. Mér fannst mál að geta ekki tannburstað mig, sturtað niður í klósetti, farið í sturtu, setja uppþvottavélina í gang, þvegið þvottin, skúrað eða nokkuð annað. Var þó ekki meira mál en það að ég renndi út á Þingeyri og fór þar í sund. Tók meira að segja með mér tóma vatnsflösku til að fylla á og eiga til að drekka. Hversu þróað er það! Vil reyndar halda því fram að það þurfi að fara að endurreikna vatnsbirgðir heimsins eftir að ég fékk ísskáp með klakavél og vatni. Þetta reddaðist nú samt seinni part dags. Málið var að snjórinn var farinn af rörinu og því lá það bert á jörðinni á smá kafla sem varð til þess að fraus - ekki lengur snjóskafl til að halda á því hita - hljómar furðulega en nokkuð til í því samt.

Upplifði það um helgina að vera einmanna sjómannskona. Viktor fór á sjó með pabba sínum - komu nú reyndar í land um kvöldið - og fóru snemma morguns næsta dag. Alltaf tekst manni þó að fylla daginn. Komst nú reyndar að því - eða öllu heldur fékk það staðfest - að ég tala sennilega með meira móti við sjálfa mig. Mestu vandræðin voru að vita hvað maður eldar handa svöngum sjóurum þegar þeir koma í land. Ekki leist þeim á steikt grænmeti og pasta eins og ég fékk mér og endaði með að greyin þurftu bara að bjarga sér sjálfir. Sunnudagurinn var þó betri fyrir þá enda komnir fyrr í land - þá fengu þeir hrygg að hætti hússins en húsbóndinn sjálfur gerði sósuna því þessir tveir sósukarlar hafa ákveðna skoðun á því hvernig það á að vera.

Enn og aftur leggst ég í ferðalög. Væntanleg skírn í borginni um hvítasunnu - reyndar hef ég hingað til alltaf sagt ferming - ætti kannski að redda bara giftingunni líka og ljúka þessu af. Hlakka svo mikið til að fá að taka aðeins á frænda enda sýnist mér á myndum að hann sé allur að stækka. Þá verður líka hægt að dáðst meira af prinsinum. Svo var ég að spá í að hafa hina ferðina leyndarmál en svo fannst mér það óréttlátt því ég hlakka svo til og því ekki að leyfa hinum að hlakka líka til ") Þori alveg að treysta því að norðanfólk vilji fá mig í heimsókn. Fékk nefnilega þetta snilldartilboð - mamma benti mér á það - beint flug frá Ísafirði til Akureyrar. Ég hafði rétt fyrir mér, það tekur ekki nema 40 mín að fljúga þetta. Verð sem sagt fyrir norðan um mánaðarmótin.

Frænkum mínum sem eru að koma á blakmót ég var búin að lofa heimsókn í fallegasta fjörðinn verð ég að svíkja en lofa bara í staðinn að sýna þeim fallegasta fjörðinn seinna. Var að reikna það út að ganni hversu langt er frá Ísafirði í Súganda (22 km), frá Ísafirði á Flateyri (17 km) en svo veit ég auðvitað hvað er langt í fallegasta fjörðinn Dýrafjörð og út á Þingeyri (48 km) en samt aðeins styttra heim til mín, svona sirka 44 km. Verð nú að segja með fullri virðingu fyrir borgarbörnunum að ég vildi gjarnan sjá framan í frænkur mínar þegar þær keyra inn á Suðureyri. Minnist þess þegar Berglind var að fljúga og fór til Kulusuk í Grænlandi í 2 tíma og fannst það alveg nógu langt stopp. Ætli tilfinningin verði ekki svipuð með Suðureyri. Ætli ég taki ekki bara saman fyrir næsta fimmtudag pistil um Dýrafjörðinn og þær gætu þá í dauða tímanum milli leikja kíkt yfir. Á þetta fína strætókort sem sýnir leiðirnar í firðina þrjá fá Ísafirði, Súganda, Önundarfjörð og svo Dýrafjörðinn ")

Jæja, læt þetta nægja í dag! Verð þó að segja fréttir af veðrinu því nú snjóar aftur á Vestfjörðum og samkvæmt fréttum erum við innilokuð hér á vestfjörðum - sjálfkrafa orðin fríríki sem einhverjir tala um. Ófært yfir heiðar svo við höldum okkur bara heima!

 Kveðja, Signý

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Takk fyrir þetta,  Bara að kvitta   Kv. Ella Bogga

EBJ (IP-tala skráð) 10.4.2008 kl. 09:33

2 identicon

Tala við sjálfa þig... kannast aðeins við það. Man að mitt uppáhald var að fela mig þegar ég sá þig koma heim úr skólanum þegar við vorum litlar. Þegar þú komst inn var samkjaftað " nú enginn heima, þá fer ég bara að pissa og svo fæ ég mér að borða og svo get ég lesið. Hvað ætti ég að fá mér, já brauð með osti. Hvar er kakóið, já hérna..." og svona talaðir og sönglaðir þú þig í gegn þar til ég gaf mig fram  Og þú hættir ekki þó ég gerið þetta marg oft, þori að veðja að þú hefur alltaf talað við sjálfa þig þar til þú varst sjö ára... þá fæddist Jói hehe.

Hlakka alveg svakalega til þess að hitta ykkur um mánaðarmótin, kannski væri snjallt að flýta afmælinu um nokkra daga, ræði það við afmælisbarnið þegar hún veit að þið eruð að koma, ætla sko ekki að segja henni það.

Luv, Alfa

Alfa (IP-tala skráð) 10.4.2008 kl. 23:12

3 identicon

Hæ ljúfan flott skrif hjá þér, bara að tala við sjálfan sig.  Verulega kunnuglegt, fer suður á fimmtudaginn og sé þá prinsinn minn litla og líka þann stóra.

Teppið þitt komið á heimasíðu..bara fræg.

Kv. Ma

Mamma (IP-tala skráð) 12.4.2008 kl. 19:09

4 identicon

Löngu pistlarnir voru ekki langir í lestri og því er tími til að lesa alla pistla.

Sign.

bj.

bj. (IP-tala skráð) 13.4.2008 kl. 22:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband