7.3.2008 | 08:28
Spurning um skilgreiningu
Nú er klukkan 23:55 og því augljóslega ennþá fimmtudagur. Reyndar kem ég þessu ekki inn á bloggið fyrr en í vinnunni á mogrun en fréttirnar verða þær sömu. Skrapp suður um helgina svona til að tékka hvort ekki væri allt við það sama í borginni. Ekki frá því að aukist hafi við háhýsin. Hús sem mér fundust stór áður en ég fór blikna nú í samanburði við nýjustu háhýsin. Heimsótti Jóa&Huldu í Kópavoginn og keyrði því fram hjá 20 hæða húsinu sem gerir allar blokkirnar í Smáranum sem áður voru háar örsmáar. Var svo á námskeiði í hvörfunum og þegar leigubílstjórinn var ekki alveg viss á staðsetningu hússins sagði ég að það væri risa stórt hús þarna sem færi ekkert framhjá okkur. Þegar svo var komið á staðinn voru risin sennilega 10 enn stærri hús og ég fór því á námskeið í minnsta húsinu í hverfinu.
Þrátt fyrir annir á mjög góðu námskeiði tókst mér að fara aðeins í búðir með áherslu á aðeins því frammistaða mín mundi sennilega blikna í samanburði við suma sem ég þekki! Ráfaði eitthvað um Smáralindina en tókst ekki að eyða neinum pening fyrr en ég komst í já þið gátuð ykkur rétt til um það verslun fyrir verðandi mæður!!! Keypti tvennar buxur báðar mjög bumbuvænar og ekki frá því að bumban hafi verið frelsinu fegin því fólk hafði orð á því þegar ég kom aftur í vinnunna að það leyndi sér nú ekkert lengur hvað væri í gangi. Lenti reyndar í svolítið fyndnu á námskeiðinu! Hitti þar fullt af fólki sem ég var að vinna með, sumum fyrir alveg 3 árum það er að segja fyrir Danska kúrinn. Var búin að spjalla við eina fyrrum samstarfskonu í dálítinn tíma þegar búið var að ræða Vestfirði, nýja húsið, vinnuna og allt þetta hefðbundna - þá kom upp spurningin hvort við værum komin með einhver börn og svarið var auðvitað að það væri verið að vinna í því með klappi á bumbuna. Þá horfði konan svolítið hissa á mig og sagði nú ég ætlaði einmitt að fara að segja hvað þú hefðir lagt mikið af. Áttaði mig líka á því og hef orðað það þannig að þrátt fyrir óðum stækkandi bumbubúa þá er ég ekki ennþá komin upp í Dönsku töluna á viktinni. Nokkuð merkilegt að átta sig á því. Nota allavegana tækifærið á meðan sú staðreynd er enn sönn!
Þrátt fyrir að hafa aðeins keypt á mig tvennar buxur var farangurinn heim nú töluvert meiri en það sem ég kom með. Þá sjaldan er ferð úr sveitinni í borginna þá er tækifærið nýtt og maður notaður til að ferja ýmislegt. Fjárfesti því í fleiri geymsluboxum úr Rúmfatalagernum sem koma enn um sinn til með að gegna hlutverki fataskápa. Gat troðið öllu þar í og allt tilbúið í flug. Hló nú samt af sjálfri mér þegar ég gekk út úr búðinni og velti því fyrir mér í þó nokkurn tíma hvort ég ætti að kaupa strákúst en ákvað að það væri sennilega svolítið afkáralegt og síður en svo þægilegt að ferðast með strákúst í handfarangri í flugi. Ekki síst þar sem ég hefði sennilega þurft að kaupa fleiri en einn. Eftirspurning gríðarleg hér á Vestfjörðum en þeir hafa því miður ekki verið til hér ja allavegana síðan byrjaði að snjóa svona mikið og þörfin fyrir þá jókst. Viktor var hálfpartinn kominn með þetta á heilann en starfsmönnum Húsasmiðjunnar hefur enn ekki þótt ástæða til að panta nokkur stykki þrátt fyrir að hann spyrji um það í hvert skipti sem hann mætir og það er ekkert voðalega sjaldan sem hann er þar. Náði með aðstoð hesthúsnágranna að klambra saman einum sem enn dugar í hesthúsið en enn vantar kústinn til að sópa tröppurnar heima. Ég hefði kannski bara átt að taka kúst og bara getað flogið á stákústnum heim.
Kíkti á bumbuna hjá Huldu sennilega í síðasta sinn þar sem bumbubúinn átti samkvæmt áætlun að láta sjá sig áður en ég kem suður aftur. Var reyndar frekar óviss um að ég ætti að fara heim á miðvikudag því fréttir þriðjudagsins voru þær að líklegast væri Hulda komin með meðgöngueitrun og setja ætti hana af stað á fimmtudegi enda komnar 38 vikur. Fannst hálf ómögulegt að skilja litla bróður minn eftir einan í þessarri óvissu því þó hann sé orðinn fullorðinn og verði orðinn pabbi áður en ég verð mamma þá er hann og verður alltaf litli bróðir sem maður vill passa upp á. Nú er þó ljóst að einhver bið verður á gangsetningu en allar líkur á að við fáum að hitta nýjan frænda í páskadvölinni í borginni. Flaug því heim samkvæmt áætlun og verð að segja að þó gaman hafi verið að hitta alla fyrir sunnan brjálað skipulag að hitta iðjusaumaklúbbinn, frænkurnar, Huldu&Jóa, Höllu þá var voða gott að koma aftur heim í sveitina. Veit eftir þessa ferð að von er á frænkum í sveitina með vorinu ætla að spila blak hér í maí þannig að það er eins gott að standa sig og sjá til þess að þær skreppi í flottasta fjörðinn og kíki á óðalið.
Ferðalögum mínum er þó ekki lokið. Erum að rjúka af stað í dag norður á Blönduós til að hitta fólkið sem við vorum með í hestaferð í sumar. Reikna með brjáluðu stuði og hlakka mikið til að hitta alla og sjá flotta myndasýningu með samsafni af myndum allra. Síðan fermingin fyrir norðan helgina þar eftir en er nú búin að næla mér í fyrirpáska frí og get því farið beint suður eftir það vonandi að hitta nýja frænda. Talandi um þeyting þá hefur minn maður tilkynnt það að hann ætli bara að vera heima um páskana vill ekki skilja hestana eftir þó auðvitað sé hægt að fá einhvern til að sinna þeim í smá stund þá finnst honum óskup þægilegt að stússast bara í hestunum ekki háður neinum kvöldmat eða nokkru öðru. Sama þó systir hans sé að fara að ferma. Hann kann við sig í sveitinni þessi!
Jæja, nóg af þessum fimmtudegi (á föstudegi)
Kveð í bili, Signý
Athugasemdir
Mögulega slappst þú mín kæra þó ég hafi verið búin að kíkja áður en það kom inn
Til hamingju með frænda, við veðrum flottustu frænkurnar um páskana, knúsumm hann endalaust.
Gott fyrir þig að máta - þó þú sért nú með stelpu mín kæra, þar er ég sammála vestfirðingnum mikla
Sjáumst á föstudaginn, þá get ég allavegana knúsað kúluna þína, Alfan
Alfa Björk Kristinsdóttir, 11.3.2008 kl. 20:17
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.