Markmið

Skyldi mér takast að standa við það ef ég set mér það markmið að blogga einu sinni í viku - alltaf á fimmtudögum. Hvernig líst fólki á það? Veit að það er hundleiðinlegt að ætla að fylgjast með bloggi og fara reglulega inn á síðu og sjá alltaf sömu gömlu færsluna. Skora jafnframt á stóru systur að vera líka virkari við bloggið ")

 Það er helst að frétta hér af Vestfjörðum að sömu veðrasviptingar hafa verið hér og á flestum öðrum landshornum - Snjór og meiri snjór, endalaus snjór, enginn snjór og allt á floti og svo aftur meiri snjór. Fer nú að trúa því að eitthvað sé til í fullyrðingum vísindamanna um breytingar á veðurfari af mannavöldum - hvað getur maður annað þegar maður situr í vorveðri um miðjan febrúar og les á netinu fréttir af því að allt sé að snjóa í kaf í Grikklandi. Segi nú ekki að hægt sé að bera okkar verður saman við sólarlönd en þetta er orðið eitthvað öfugsnúið.

 Nóg að gera hjá hjónaleysum í vinnu. Viktor tók að sér verk í Félgasheimilinu á Þingeyri og brýtur nú eins og óður niður veggi og raufar í gólf til að pota niður rörum. Lætur sér ekki nægja að raska öllu innandyra og hefur fært sig upp á skaftið með að róta í jörðu utandyra til að setja niður nýjar skólplagnir. Ef maður er á annað borð að endurnýja er eins gott að gera það alla leið!! Þessar miklu framkvæmdir snúast um það að endurnýja og breyta fyrirkomulagi á klósettaðstöðu félagsheimilisins. Fékk að heyra margar sögur af því á þorrablóti um síðustu helgi þegar skólabörnin voru í leikfimi í salnum í Félagsheimilinu og fóru svo í sturtu niðri í kjallara - og alls ekki mjög fullorðið fólk sem sagði sögurnar. Mín minning um fyrstu ferð á þessi klósett er líka ansi skondin því þá upplifði ég nokkuð sem ekki gerist á hverjum degi - mér fannst ég nefnilega svo hávaxin inni á þessu klósetti þar sem töluvert vantar upp á fulla lofthæð - maður nýtir nú svona tækifæri til að upplifa heim hinna hávöxnu. Spítalalífið er eins og vant er. Hoppa á milli hæða og sinni jafnt ungum sem öldnum í mínu starfi. Gaman frá því að segja að fjölbreytnin er mikil og á 4 vikna fresti kemur inn hópur í svokallaða Heilsueflingu. Fjórir einstaklingar í senn sem dvelja hér í 4 vikur - allt er þegar fernt er - á alla kannta. Myndast oft svo skemmtileg stemming í litlum hóp og hópurinn sem hefur verið núna alveg sérstaklega hress og skemmtilegur - ólíkir einstaklingar sem samt spila svo vel saman. Hver og einn nýtir sínar sterku hliðar og græðir svo á stekru hliðum hinna. Feykilega gaman að vera iðjuþjálfi í svona vinnu.

Litla bumbubúanum heilsast vel og er óskup góður við mömmu sína. Fengum að kíkja á krílið í síðustu viku þegar við fórum í 20 vikna sónar og fengum fullt af myndum. Gaman hversu miklu raunverulegra þetta verður allt þegar maður fær að horfa á krílið þarna á skjánum. Ljósmóðirin hafði orð á því að þetta væri nú hin besta fyrirsæta (athugið að þetta orð getur átt við bæði kynin) - sýndi allar sínar bestu hliðar og lítið mál að finna allt sem ljósan vildi sjá. Fékk toppeinkunn út úr þessarri skoðun. Reyndar færði ljósmóðirin settan fæðingardag um 3 daga og ef það næst verður fyrri hluti kennitölu nokkuð svöl 060708 - en það eru víst ekki nema 4% barna sem fæðast á settum degi. Hreyfingar alltaf að verða greinilegri og greinilegri og með góðum vilja og nokkuð mikilli bakfettu má alveg segja að það sé komin kúla! Reyndar finnst mér ekkert óeðlileg að lítið fari fyrir kríli sem mælist með framhandlegssbein og lærlegg upp á 3.1 sm - það er nú ekki stórt en alveg eðlilegt á þessum tíma víst. Fannst merkilegt það sem ljósmóðirin sagði með þessa mælingu en á 20. viku eru víst öll börn jafn stór - hvort sem þau eru íslensk, kínversk, rússnesk, frönsk eða hvað sem er. Það er ekki fyrr en eftir það sem genin fara að hafa áhrif. Gladdist líka yfir því þegar kúlan var mæld frá lífbeini og upp að ég er í meðalatalinu - sennilega í fyrsta skipti þar sem orðið stærð og í meðaltali er notað um mig í sömu setningu. Mætti halda að ég væri með einhverja komplexa út af eigin stærð þar sem ég er tvisvar búin að minnast á það hér í blogginu hehe. Við ákváðum að fá ekki að vita kynið á barninu en fengum það í lokuðu umslagi. Undir lok sónarskoðunar spurði ég ljósmóðurina hvort við ættum nú að líta undan svo hún gæti kannað kynið en þá var hún auðvitað lögnu búin að sjá það - og við þá sennilega líka án þess að átta okkur á því. Það er nú ýmislegt á þessum myndum sem þær sjá sem öðrum er ómögulegt að sjá! Viktor er reyndar svo sannfærður um að þetta sé stelpa og þó hann segist ekki vilja vita það þá á hann erfitt með að stilla sig - ekki til að vita kynið heldur til að fá staðfestingu á því að hann hafi rétt fyrir sér. Þegar við gegnum út úr sónarstofunni var ég á undan út og hann lokaði hurðinni og króaði ljósmóðurina af til að spurna hana. Hún lét ekkert uppi um það en sagði að hún gæti sagt okkur báðum það - það skal tekið fram að Viktor þekkir ljósmóðurina vel! Ég hef ekki fengið að komast nærri umslaginu og sagðist Viktor vera búinn að týna því en í gær var hann búinn að finna það aftur.

Minntist hér áður á það að við skelltum okkur á þorrablót og held að það megi treysta því fiskisagan er flogin enda ófáar hamingjuóskirnar sem bárust okkur þar. Viktor var í essinu sínu og nýtti leikræna hæfileika sína í botn þegar hann þóttist ekkert vita og lét sem fólk væri að segja honum fréttir - setti upp alskonar svipi og snéri svo upp á sig og sagðist nú ætla að fá þetta staðfest. Bestur var þó Óli í Lambadal sem kom upp að okkur - nokkuð vel í glasi - og sagðist hafa gleðifréttir að færa okkur - Við ættum von á barni. Brosti svo sínu blíðast og hló! Afhverju að vera hefðbundinn þegar allir aðrir eru örugglega búnir að tyggja sömu tugguna - fara nýjar leiðir!

Höfum verið ansi heimakær upp á síðkastið en nú nálgast páskar og þá verður nú eitthvað farið af stað. Sjálf verð ég fyrir sunnan á námskeiði 3-5. mars, bæði verðum við í "hestaferðarupprifjun" á Blönduósi 7-9.mars,  ferming fyrir norðan 15. mars og svo sjálfir páskarnir þegar von er á að marsbúinn (þ.e. kúlubúi sem voner á í mars) þeirra Huldu og Jóa fari að láta sjá sig og allt eins víst að maður noti sér orlofsíbúðina sem mamma er búin að fá. Það er því greinilega ekki gott að hanga of mikið heima því þá tekur maður það bara út með svona rassíu.

Segi kannski síðar frá áframhaldandi húsbyggingum en framkvæmdir hafa verið í lágmarki undanfarið - að flestra sögn mjög eðlilegt eftir að flutt er inn, eins og pressan fari öll af við það.

Jæja, greinilega eins með ferðalög og blogg. Ef líður og langt á milli þá kemur flóð.

Fyrsta fimmtudagsbloggið hefur nú litið dagsins ljós!

Heyrumst næsta fimmtudag ")

Signý


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hæ Skvís! Mér líst rosalega vel á að fá nýjar fréttir alltaf uppfærðar á fimmtudögum  Frábært að heyra hvað "frænka" mín hefur það gott í kúlunni sinni hahha  annars er líka fínt að bæta við einum guttanum í viðbót  Ef þú kemur fyrir 2. mars í bæinn þá nærðu fyrsta afmælinu hjá Jóhönnu  ætlum að hafa það annan.

bið að heilsa öllum,,,,kveðja og kossar Birna og co

Birna mágkona (IP-tala skráð) 21.2.2008 kl. 16:17

2 identicon

Hávaxinn þarna niðri!!bíddu þetta má nú miskilja hehehhenei nei bara ég....en ég hélt í upphafi bloggsins að þú ætlaðir að lýsa því yfir að þú færir alltaf í vinnuna á fimmtudögum heheeh nei nei grín ertu nokkuð búin að vera svo veðurteppt????farðu svo og taktu til og finndu bréfið góða og sendu mér það,ég skal PASSA það...hihhi...knús í kaf kysstu stóra brósa og Aron minn frá mér..kv Elva uppáhalds mágkona no 1 muna það(jebb bara samkeppni hér,hörð!!::)))

Elva (IP-tala skráð) 21.2.2008 kl. 22:07

3 identicon

Það munaði ekki um það þegar mín fór af stað, góð hugmynd með fimmtudaga.  Ég var hreinlega búin að gleyma þessari síðu þinni.  Frændi þinn ófæddur Jóhannsson er kominn með síðu og þá rifjaðist upp fyrir mér að í fyndinn var ung kona fyrir vestan með síðu og viti menn........ Alltaf sjálfri sér lík, þegar hún fer af stað í eitthvað þá munar ekkert um það.  Flott skrif hjá þér, þú en flinkur penni góða mín:)

Var að kaupa í peysu fyrir Jóason og velti mikið fyrir mér litum í svipaða fyrir Signýjardóttur/son.

Ég og Alfa vorum reyndar á undan Elfu með þessa hugmynd að geyma þetta fyrir ykkur..........

Hlakka til að sjá þig oft og mörgum sinnum í næsta mánuði.

Margrét Alfreðsdóttir (IP-tala skráð) 24.2.2008 kl. 17:52

4 identicon

Gott að heyra af ykkur. Hei ég átti að geyma umslagið og bíð eftir því með póstinum á hverjum degi. Reyndar veit ég að þetta er stúlkukríli...eða...nei ég segi svona.

Fer að taka mig á í blogginu, get ekki verið minni manneskja en litla systir.

Hlakka til að knúsa ykkur þegar þið komið í ferminguna. Mér skilst að við séum ekki boðnar í hestaferðarupprifjunina þó ég hafi verið aðal ljósmyndarinn í lok ferðarinnar... spuring hvort maður gefi sig eitthvða fram næst, annars grunar miig að AGM ætlimeð í næstu ferð.

kv.Alfa

Alfa (IP-tala skráð) 27.2.2008 kl. 20:40

5 identicon

Jæja allar flóðgáttir að opnast hlakka til að skoða á morgun þegar næsta fimmtudagsblogg kemur:) Gott að heilsan er fín hjá þér og að allt gangi sinn vana gang þarna.  kv. ebj

ebj (IP-tala skráð) 28.2.2008 kl. 12:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband