Spurning um skilgreiningu

Nú er klukkan 23:55 og því augljóslega ennþá fimmtudagur. Reyndar kem ég þessu ekki inn á bloggið fyrr en í vinnunni á mogrun en fréttirnar verða þær sömu. Skrapp suður um helgina svona til að tékka hvort ekki væri allt við það sama í borginni. Ekki frá því að aukist hafi við háhýsin. Hús sem mér fundust stór áður en ég fór blikna nú í samanburði við nýjustu háhýsin. Heimsótti Jóa&Huldu í Kópavoginn og keyrði því fram hjá 20 hæða húsinu sem gerir allar blokkirnar í Smáranum sem áður voru háar örsmáar. Var svo á námskeiði í hvörfunum og þegar leigubílstjórinn var ekki alveg viss á staðsetningu hússins sagði ég að það væri risa stórt hús þarna sem færi ekkert framhjá okkur. Þegar svo var komið á staðinn voru risin sennilega 10 enn stærri hús og ég fór því á námskeið í minnsta húsinu í hverfinu.

Þrátt fyrir annir á mjög góðu námskeiði tókst mér að fara aðeins í búðir – með áherslu á aðeins – því frammistaða mín mundi sennilega blikna í samanburði við suma sem ég þekki! Ráfaði eitthvað um Smáralindina en tókst ekki að eyða neinum pening fyrr en ég komst í – já þið gátuð ykkur rétt til um það – verslun fyrir verðandi mæður!!! Keypti tvennar buxur – báðar mjög bumbuvænar og ekki frá því að bumban hafi verið frelsinu fegin því fólk hafði orð á því þegar ég kom aftur í vinnunna að það leyndi sér nú ekkert lengur hvað væri í gangi. Lenti reyndar í svolítið fyndnu á námskeiðinu! Hitti þar fullt af fólki sem ég var að vinna með,  sumum fyrir alveg 3 árum – það er að segja fyrir Danska kúrinn. Var búin að spjalla við eina fyrrum samstarfskonu í dálítinn tíma – þegar búið var að ræða Vestfirði, nýja húsið, vinnuna og allt þetta hefðbundna - þá kom upp spurningin hvort við værum komin með einhver börn og svarið var auðvitað að það væri verið að vinna í því – með klappi á bumbuna. Þá horfði konan svolítið hissa á mig og sagði “nú ég ætlaði einmitt að fara að segja hvað þú hefðir lagt mikið af”. Áttaði mig líka á því og hef orðað það þannig að þrátt fyrir óðum stækkandi bumbubúa þá er ég ekki ennþá komin upp í Dönsku töluna á viktinni. Nokkuð merkilegt að átta sig á því. Nota allavegana tækifærið á meðan sú staðreynd er enn sönn!

Þrátt fyrir að hafa aðeins keypt á mig tvennar buxur var farangurinn heim nú töluvert meiri en það sem ég kom með. Þá sjaldan er ferð úr sveitinni í borginna þá er tækifærið nýtt og maður notaður til að ferja ýmislegt. Fjárfesti því í fleiri geymsluboxum úr Rúmfatalagernum sem koma – enn um sinn – til með að gegna hlutverki fataskápa. Gat troðið öllu þar í og allt tilbúið í flug. Hló nú samt af sjálfri mér þegar ég gekk út úr búðinni og velti því fyrir mér – í þó nokkurn tíma – hvort ég ætti að kaupa strákúst en ákvað að það væri sennilega svolítið afkáralegt og síður en svo þægilegt að ferðast með strákúst í handfarangri í flugi. Ekki síst þar sem ég hefði sennilega þurft að kaupa fleiri en einn. Eftirspurning gríðarleg hér á Vestfjörðum en þeir hafa því miður ekki verið til hér – ja allavegana síðan byrjaði að snjóa svona mikið og þörfin fyrir þá jókst. Viktor var hálfpartinn kominn með þetta á heilann en starfsmönnum Húsasmiðjunnar hefur enn ekki þótt ástæða til að panta nokkur stykki þrátt fyrir að hann spyrji um það í hvert skipti sem hann mætir og það er ekkert voðalega sjaldan sem hann er þar. Náði með aðstoð hesthúsnágranna að klambra saman einum sem enn dugar í hesthúsið en enn vantar kústinn til að sópa tröppurnar heima. Ég hefði kannski bara átt að taka kúst og bara getað flogið á stákústnum heim.

Kíkti á bumbuna hjá Huldu sennilega í síðasta sinn þar sem bumbubúinn átti samkvæmt áætlun að láta sjá sig áður en ég kem suður aftur. Var reyndar frekar óviss um að ég ætti að fara heim á miðvikudag því fréttir þriðjudagsins voru þær að líklegast væri Hulda komin með meðgöngueitrun og setja ætti hana af stað á fimmtudegi enda komnar 38 vikur. Fannst hálf ómögulegt að skilja “litla” bróður minn eftir einan í þessarri óvissu því þó hann sé orðinn fullorðinn og verði orðinn pabbi áður en ég verð mamma þá er hann og verður alltaf  “litli” bróðir sem maður vill passa upp á. Nú er þó ljóst að einhver bið verður á “gangsetningu” en allar líkur á að við fáum að hitta nýjan frænda í páskadvölinni í borginni. Flaug því heim samkvæmt áætlun og verð að segja að þó gaman hafi verið að hitta alla fyrir sunnan – brjálað skipulag að hitta iðjusaumaklúbbinn, frænkurnar, Huldu&Jóa, Höllu – þá var voða gott að koma aftur heim í sveitina. Veit eftir þessa ferð að von er á frænkum í sveitina með vorinu – ætla að spila blak hér í maí þannig að það er eins gott að standa sig og sjá til þess að þær skreppi í flottasta fjörðinn og kíki á óðalið.

Ferðalögum mínum er þó ekki lokið. Erum að rjúka af stað í dag norður á Blönduós til að hitta fólkið sem við vorum með í hestaferð í sumar. Reikna með brjáluðu stuði og hlakka mikið til að hitta alla og sjá flotta myndasýningu með samsafni af myndum allra. Síðan fermingin fyrir norðan helgina þar eftir en er nú búin að næla mér í “fyrirpáska frí” og get því farið beint suður eftir það – vonandi að hitta nýja frænda. Talandi um þeyting þá hefur minn maður tilkynnt það að hann ætli bara að vera heima um páskana – vill ekki skilja hestana eftir þó auðvitað sé hægt að fá einhvern til að sinna þeim í smá stund þá finnst honum óskup þægilegt að stússast bara í hestunum – ekki háður neinum kvöldmat eða nokkru öðru. Sama þó systir hans sé að fara að ferma. Hann kann við sig í sveitinni þessi!

Jæja, nóg af þessum fimmtudegi (á föstudegi)

Kveð í bili, Signý 

 


Og þá er kominn fimmtudagur....

.....sem þýðir að ég ætla að koma með meira blogg. Eins gott að standa sig! Sé nú að einhverjir fleiri í fjölsyldunni hafa tekið við sér - áskorunin virkaði.

Hef nú aðeins velt vöngum yfir því hvað ég ætti að skrifa því það er náttúrulega ekkert að frétta núna eftir eina viku miðað við það sem mér tókst að koma niður í síðustu viku. Auðvitað eru fréttir af veðri - en þær eru nú óskup svipaðar. Hér hefur snjóað alveg endalaust og heimreiðin teppist alltaf - annaðhvort vegna þess að það snjóar svo mikið eða þá að það skefur í skafla. Full þörf á að vakna tímanlega því ég veit aldrei hvort ég fer á bílnum niður á veg eða þarf hreinlega að labba. Hef nú ekki ennþá lent í því en hver veit! Snjórinn gerir mér þó grikk í þeim málum því ég þarf að leggja bílnum mínum einhversstaðar niðri við veg og var búin að finna mér þetta fína stæði en þegar snjóaði sem mest fyrir einhverju og þá týndi ég því stæði náttúrulega enda mokaði vegagerðin af miklum móð og fyllti það strax. Lagði þá í beyjunni við heimreiðina en þá var náttúrulega ekki hægt að moka heimreiðina - ekki það að þeir séu að því á hverjum degi en alveg bókað að þeir myndu ætla að gera það einmit þegar bíllinn minn stæði þar. Þegar ég svo loksins fann gamla stæðið aftur - eftir hlákuna miklu - var ég ekki búin að leggja þar lengi þegar Viktor tilkynnti mér það að hann hefði fengið upphringingu frá Vegagerdinni þá um daginn og hann vinsamlegast beðinn um að segja mér að ég mætti ekki leggja þarna þar sem mokstursbíllinn þyrfti að hægja á sér til að ausa ekki yfir hann sköflunum - ekki það að hann hafi ekki gert það margsinnis hingað til - en málið var að ef hann gerir það kemur það niður á mokstri fyrir framan húsið sem stendur hinumeginn við veginn. Er því búin að finna mér enn eitt stæðið og ekki enn verið sett út á það en hver veit nema hringt verði frá Orkubúi Vestfjarða og mér tilkynnt að bíllinn megi ekki standa þar á veginum upp að dælustöðunni. Kemur í ljós.

Gleymdi þó að segja frá því síðast að mér tókst að vera "hér um bil" veðurteppt einn fimmtudaginn - í vinnunni - sem er ekki neitt voðalega spes. Það reddaðist með hjálp góðra manna. Ég hef nú örugglega nefnt það hversu þægilegt þetta er hjá mér - tek rútu að morgni og aftur heim í lok dags. Þarf því ekkert að hugsa um akstur eða færð. Þennan dag hafði ég farið með rútunni um morguninn - eins og vanalega - um hádegi heyri ég svo að búið sé að loka Gemlufallsheið - en yfir hana þarf ég að fara til að komast heim í Dýrafjörðinn. Þarna kom þó í ljós að gott getur verið að búa í litlu samfélagi. Hringdi einfaldlega í rútubílstjórann og spurði hvað ég ætti að gera. Hann benti mér á sinn yfirmann sem ég og hrindi í. Hann spurði þá bara hvað við hefðum verið mörg í rútunni um morguninn - að spá í það hversu mörgum hann þyrfti að koma til baka. Sagði mér svo af því að einn af farþegunum, sem áður keyrði hjá honum, myndi hugsanlega taka fyrir þá fjórhjóladrifinn pallbíl sem væri á verkstæði á Ísafirði og ég skildi bara hringja í hann og biðja hann um að taka mig með. Það gekk svo eftir og rétt rúmlega 4 hringdi hann í mig og sagði að Vegagerðin ætlaði að opna tímabundið heiðina og við yrðum að drífa okkur. Öllum farþegum rútunnar þann daginn smalað saman og allir komust heim. Haldið þið að það sé þjónusta ") Daginn eftir spáði síðan svo illa að ég ákvað að taka ekki áhættuna og afboðaði mig í vinnu. Átti að vera enn verra veður en daginn áður. Vaknaði um morguninn og heyrði í rokinu. Hringdi í vinnuna og afboðaði mig. Vaknaði svo aftur um 9 og þá var sennilega komið mesta logn sem ég hef nokkurntíma upplifað síðan ég flutti í Hvamm. Það stóð þó ekki lengi og eftir því sem leið á daginn hvessti og rútan fór nú heim aftur frá Ísafirði en mun fyrr en vanalega.

Nóg um veður og færð. Bendi bara á bloggið hans Einars veðurfærðings ef ykkur þyrstir í meira.

Mikil plön um helgina. Suðurferð og námskeið í byrjun næstu viku. Nú er ég að upplifa þetta með að ætla mér að gera allt í þessu stoppi. Sennilega búin að lofa of mörgu en það verður örugglega nóg að gera. Þarf að fara að huga að því að skrifa listann yfir það sem þarf að gera, kaupa og þá sem þarf að hitta. Gerði grín af því í síðustu ferð suður - sem á þeim tíma snerist um að versla inn vegna húsbyggingar - að þar sem ég gæti aðeins hitt fáa þá yrði bara að draga úr miðum hverjir það yrðu. Svo hringdi Jónína vinkona í mig - sármóðguð - því hún hafði reynt að hafa uppi á mér í vinnunni fyrir vestan og var þá tilkynnt að ég væri í Reykjavík. Eina sem ég gat sagt var - sorrý, þú lentir ekki í þesum útdrætti. Verður bara heppnari næst ")

Annars var ég örugglega búin að segja frá öllum ferðaplönum síðast en verð nú bara að segja að ég hlakka voða mikið til að hitta Jóa og Huldu í borginni, mömmu og pabba í hestahittingi helgina þar eftir og svo Ölfu og Örnu helgina þar eftir í fermingu fyrir norðan. Nóg að gera næstu helgar og búin að snapa mér fríi 3 daga fyrir páska svo ég þarf ekkert að fara heim á milli fermingar og páska. Verð bara að dóla mér, ja annaðhvort fyrir norðan eða að skoða nýja frænda minn sem settur er á páskadag en hver veit nema hann láti bíða eftir sér.

Jæja, manni tekst alltaf að blaðra heilmikið um ekki neitt. Var nú búin að spá í það að þar sem fátt væri að frétta ætti ég bara að fræða ykkur um ný heimkynni mín en það bíðu þá bara betri tíma. Þarf nefnilega að fara að ná rútunni núna.

 Kveðja, Signý


Markmið

Skyldi mér takast að standa við það ef ég set mér það markmið að blogga einu sinni í viku - alltaf á fimmtudögum. Hvernig líst fólki á það? Veit að það er hundleiðinlegt að ætla að fylgjast með bloggi og fara reglulega inn á síðu og sjá alltaf sömu gömlu færsluna. Skora jafnframt á stóru systur að vera líka virkari við bloggið ")

 Það er helst að frétta hér af Vestfjörðum að sömu veðrasviptingar hafa verið hér og á flestum öðrum landshornum - Snjór og meiri snjór, endalaus snjór, enginn snjór og allt á floti og svo aftur meiri snjór. Fer nú að trúa því að eitthvað sé til í fullyrðingum vísindamanna um breytingar á veðurfari af mannavöldum - hvað getur maður annað þegar maður situr í vorveðri um miðjan febrúar og les á netinu fréttir af því að allt sé að snjóa í kaf í Grikklandi. Segi nú ekki að hægt sé að bera okkar verður saman við sólarlönd en þetta er orðið eitthvað öfugsnúið.

 Nóg að gera hjá hjónaleysum í vinnu. Viktor tók að sér verk í Félgasheimilinu á Þingeyri og brýtur nú eins og óður niður veggi og raufar í gólf til að pota niður rörum. Lætur sér ekki nægja að raska öllu innandyra og hefur fært sig upp á skaftið með að róta í jörðu utandyra til að setja niður nýjar skólplagnir. Ef maður er á annað borð að endurnýja er eins gott að gera það alla leið!! Þessar miklu framkvæmdir snúast um það að endurnýja og breyta fyrirkomulagi á klósettaðstöðu félagsheimilisins. Fékk að heyra margar sögur af því á þorrablóti um síðustu helgi þegar skólabörnin voru í leikfimi í salnum í Félagsheimilinu og fóru svo í sturtu niðri í kjallara - og alls ekki mjög fullorðið fólk sem sagði sögurnar. Mín minning um fyrstu ferð á þessi klósett er líka ansi skondin því þá upplifði ég nokkuð sem ekki gerist á hverjum degi - mér fannst ég nefnilega svo hávaxin inni á þessu klósetti þar sem töluvert vantar upp á fulla lofthæð - maður nýtir nú svona tækifæri til að upplifa heim hinna hávöxnu. Spítalalífið er eins og vant er. Hoppa á milli hæða og sinni jafnt ungum sem öldnum í mínu starfi. Gaman frá því að segja að fjölbreytnin er mikil og á 4 vikna fresti kemur inn hópur í svokallaða Heilsueflingu. Fjórir einstaklingar í senn sem dvelja hér í 4 vikur - allt er þegar fernt er - á alla kannta. Myndast oft svo skemmtileg stemming í litlum hóp og hópurinn sem hefur verið núna alveg sérstaklega hress og skemmtilegur - ólíkir einstaklingar sem samt spila svo vel saman. Hver og einn nýtir sínar sterku hliðar og græðir svo á stekru hliðum hinna. Feykilega gaman að vera iðjuþjálfi í svona vinnu.

Litla bumbubúanum heilsast vel og er óskup góður við mömmu sína. Fengum að kíkja á krílið í síðustu viku þegar við fórum í 20 vikna sónar og fengum fullt af myndum. Gaman hversu miklu raunverulegra þetta verður allt þegar maður fær að horfa á krílið þarna á skjánum. Ljósmóðirin hafði orð á því að þetta væri nú hin besta fyrirsæta (athugið að þetta orð getur átt við bæði kynin) - sýndi allar sínar bestu hliðar og lítið mál að finna allt sem ljósan vildi sjá. Fékk toppeinkunn út úr þessarri skoðun. Reyndar færði ljósmóðirin settan fæðingardag um 3 daga og ef það næst verður fyrri hluti kennitölu nokkuð svöl 060708 - en það eru víst ekki nema 4% barna sem fæðast á settum degi. Hreyfingar alltaf að verða greinilegri og greinilegri og með góðum vilja og nokkuð mikilli bakfettu má alveg segja að það sé komin kúla! Reyndar finnst mér ekkert óeðlileg að lítið fari fyrir kríli sem mælist með framhandlegssbein og lærlegg upp á 3.1 sm - það er nú ekki stórt en alveg eðlilegt á þessum tíma víst. Fannst merkilegt það sem ljósmóðirin sagði með þessa mælingu en á 20. viku eru víst öll börn jafn stór - hvort sem þau eru íslensk, kínversk, rússnesk, frönsk eða hvað sem er. Það er ekki fyrr en eftir það sem genin fara að hafa áhrif. Gladdist líka yfir því þegar kúlan var mæld frá lífbeini og upp að ég er í meðalatalinu - sennilega í fyrsta skipti þar sem orðið stærð og í meðaltali er notað um mig í sömu setningu. Mætti halda að ég væri með einhverja komplexa út af eigin stærð þar sem ég er tvisvar búin að minnast á það hér í blogginu hehe. Við ákváðum að fá ekki að vita kynið á barninu en fengum það í lokuðu umslagi. Undir lok sónarskoðunar spurði ég ljósmóðurina hvort við ættum nú að líta undan svo hún gæti kannað kynið en þá var hún auðvitað lögnu búin að sjá það - og við þá sennilega líka án þess að átta okkur á því. Það er nú ýmislegt á þessum myndum sem þær sjá sem öðrum er ómögulegt að sjá! Viktor er reyndar svo sannfærður um að þetta sé stelpa og þó hann segist ekki vilja vita það þá á hann erfitt með að stilla sig - ekki til að vita kynið heldur til að fá staðfestingu á því að hann hafi rétt fyrir sér. Þegar við gegnum út úr sónarstofunni var ég á undan út og hann lokaði hurðinni og króaði ljósmóðurina af til að spurna hana. Hún lét ekkert uppi um það en sagði að hún gæti sagt okkur báðum það - það skal tekið fram að Viktor þekkir ljósmóðurina vel! Ég hef ekki fengið að komast nærri umslaginu og sagðist Viktor vera búinn að týna því en í gær var hann búinn að finna það aftur.

Minntist hér áður á það að við skelltum okkur á þorrablót og held að það megi treysta því fiskisagan er flogin enda ófáar hamingjuóskirnar sem bárust okkur þar. Viktor var í essinu sínu og nýtti leikræna hæfileika sína í botn þegar hann þóttist ekkert vita og lét sem fólk væri að segja honum fréttir - setti upp alskonar svipi og snéri svo upp á sig og sagðist nú ætla að fá þetta staðfest. Bestur var þó Óli í Lambadal sem kom upp að okkur - nokkuð vel í glasi - og sagðist hafa gleðifréttir að færa okkur - Við ættum von á barni. Brosti svo sínu blíðast og hló! Afhverju að vera hefðbundinn þegar allir aðrir eru örugglega búnir að tyggja sömu tugguna - fara nýjar leiðir!

Höfum verið ansi heimakær upp á síðkastið en nú nálgast páskar og þá verður nú eitthvað farið af stað. Sjálf verð ég fyrir sunnan á námskeiði 3-5. mars, bæði verðum við í "hestaferðarupprifjun" á Blönduósi 7-9.mars,  ferming fyrir norðan 15. mars og svo sjálfir páskarnir þegar von er á að marsbúinn (þ.e. kúlubúi sem voner á í mars) þeirra Huldu og Jóa fari að láta sjá sig og allt eins víst að maður noti sér orlofsíbúðina sem mamma er búin að fá. Það er því greinilega ekki gott að hanga of mikið heima því þá tekur maður það bara út með svona rassíu.

Segi kannski síðar frá áframhaldandi húsbyggingum en framkvæmdir hafa verið í lágmarki undanfarið - að flestra sögn mjög eðlilegt eftir að flutt er inn, eins og pressan fari öll af við það.

Jæja, greinilega eins með ferðalög og blogg. Ef líður og langt á milli þá kemur flóð.

Fyrsta fimmtudagsbloggið hefur nú litið dagsins ljós!

Heyrumst næsta fimmtudag ")

Signý


Hvurslags

Aldeilis ekki verið að standa sig í blogginu. Enn netlaus heima og auðvitað ekki tími til að sinna þessu í vinnunni - þó ég sé nú að því núna hehe. En þetta verður bara stutt. Gerði nú grín af því í upphafi að mér finndist ég ekki hafa neinar féttir nema þegar ég væri flutt inn í húsið eða orðinu ólétt. Fannst svona eins og fólk byggist kannski helst við þeim fréttum - jafnvel farið að bíða eftir þeim. En sú afsökun gildir ekki núna því nú get ég aldeilis sagt féttir - þið vitið að við erum flutt inn og sennilega flest líka að von er á litlum vestfirðingi í júlí ") Kannski gaman að segja frá því að við héldum hangikjötsboð á jóladag en áður en allir gestirnir komu náðum við Guðna Páli og Viktoríu einum með okkur og tilkynntum þeim þetta - og eitthvað misskildi Viktoría blessunin þetta því hún sendi skilaboð til mömmu sinnar um að hún ætti von á systkini 18. janúar í staðinn fyrir 3.júlí. Misskilningur sennilega byggður á því að ég sagði við Guðna að hann hlyti nú að vera sáttur við mánuðinn þar sem hann á afmæli í 18. júlí. Janúar/Júlí - þetta hljómar allt eins. Má nú segja að þó það hafi nú verið einhver bið eftir þessarri fjölgun þá efast ég nú um að það sé hægt að fá þetta í gegn með DHL-hraðsendingu.

Annars fátt um féttir enda flest sem fellur í skuggann af þessu - allavega í mínum augum. Heilsan hefur verið verð ég að segja betri en fín - engin ógleði en fékk þó smá sýnishorn af kyrrsetningu. En það gekk fljótt yfir. Var heima í viku en svo fékk ég bara fyrirskipun að taka þessu með skynsemi og ekki neinn æsing - sem er kannski svolítið skondið því ég held að ég verði seint talin mjög æst manneskja ") Kúlubúinn í góðum málum og virðist líka taka þessu með ró - ekkert að láta hafa neitt mikið fyrir sér dags daglega og enn ekki farinn að minna á sig með neinu banki - rólegt kríli eins og mamma sín ") Eða kannski bara ekki búið að fatta að það megi nú alveg fara að láta vita af sér - enn og aftur fattlaust eins og mamma sín! Nema verið sé að safna kröftum þar til í heiminn kemur "/

 Sem sagt allt gott að frétta úr Dýrafirðinum. Sömu sýnishorn af veðri hér og annarsstaðar. Frost og snjór einn daginn en rok og riginign þann næsta þar sem allur snjór hverfur en síðan kyngir niður á einni nóttu tvöfalt meiri snjó en var daginn þar á undan.

 Kveð í bili, Signý og krílið í kúlunni (sem er enn þó varla vaxinn fram úr þeirri sem fyrir var)


Loksins myndir!

Þá er ég loksins komin með allar myndir á einn stað! Ætla að fleygja nokkrum inn og vonandi fáið þið ekki áfall við að sjá fyrstu myndirnar - jafnvel ráð að byrja bara á þeim síðustu og fyllast svo bara af lotningu við að sjá hvað kallarnir mínir hafa verið duglegir. Á hinn veginn yrði það bara - hversu ruglaðir kallarnir mínir væru ") Sé það núna að maður hefur nú verið létt ruglaður að leggja út í þetta en ákvörðunin var tekin og ekki aftur snúið.

Það fer mjög vel um okkur í nýja húsinu. Getum dútlað við hitt og þetta fram á kvöld og svo bara skriðið upp í rúm. Eldhúsið er í þessum töluðu orðum að smella í að verða tilbúið, komin plata, vaskur, eldavél, uppþvottavél og allt.......nema ísskápur sem kemur á laugardag.....á morgun. Svo er það allt dútlið - ganga frá listum á parketi, samskeytum, rafmagnslokum.......og allt hitt. Áætlað að halda jólahangikjötsboð á jóladag og þá þarf að vera orðið sæmilega snyrtilegt. Eigum reyndar eftir að ná í búslóðina en það verður smá burður og nokkrir rúntar með fínu, fínu hestakerruna sem hefur nú sýnt að hún er fjölhæfari en nafnið bendir til - hefur verið notuð sem geymsla, ruslagámur, til búslóðaflutninga og alveg ómissandi í verslunarferðir í bæinn þegar versluð er klæðning á hús o.þ.h.

Hlakka því til jólanna og vona að enginn verði svekktur þó ekki hafi borist jólakort frá okkur hér á Vestfjarðakjálkanum en ég get nú ekki kennt fjarlægð um þó það hafi hvarlað að mér en staðreyndin er sú að það hefur einfaldlega ekki gefist tími til að setjast niður til jólakortaskrifa - auk þess sem það er lítið um húsgögn í húsinu til að tilla sér á. Höfðum þó í flimtingum með það að senda bara jólakveðju í útvarpið en höfum ekki framkvæmt það ennþá og óvíst að svo verði. Þó er stefnt að áramótakveðju og sem betur fer má hún koma eftir áramót líka ")

Njótið því myndanna en segi enn og aftur - myndirnar ná aldrei öllu það þarf bara að koma og skoða með eigin augum!!

Megi þið öll eiga gleðileg og hamingjurík jól!

Kveðja, Signý


Önnur nóttin!

Jæja, önnur nóttin var betri. Svaf eins og steinn. Álfarnir hafa kannski bara verið svona forvitnir fyrri nóttina og hver veit nema þeir hafi lesið bloggið og áttað sig á því að þeir væru að valda þessu ónæði og dregið sig í hlé í nótt. Maður veit ekki hversu háþróaðir þeir eru í tækninni. Þurftu bara staðfestingu á að við vissum af þeim þarna á hlaðinu ") Nokkuð viss um að við eigum eftir að verða góðir nágrannar, við og álfarnir. Signý - óstöðvandi í blogginu þessa dagana!

Fyrsta nóttin!

Stórtíðindi úr sveitinni! Gistum í nýja húsinu í nótt. Höfðum reyndar ráðgert að það yrði á laugardag en það var enn full mikið púss-ryk um allt til að hægt væri að flytja inn rúm og búa um. Þó lukkan fylgi laugardegi þá fylgir sæla sunnudegi og það tókst. Sunnudagur fór í þrif og lokafrágang á efstu hæð. Búið að mála, parketleggja, setja hurði og komið upp klósett, vaskur og sturta. Sópaði, ryksugaði og skúraði - öll tiltæk þvottaáhöld nýtt og mátti ekki minna vera. Efsta hæðin - þar sem svefnherbergin eru - lengst komin eða nánast fullkláruð, miðhæðin öll að koma til - þarf að þrífa, púsla inn rest af eldhúsinnréttingu, koma upp vask á klósettið en klósettið komið, jú og flísa forstofuna. Kjallarinn er síðan nánast hrár. Á enn eftir að pússa niður spartl, mála, parketleggja.

Sem sagt fyrsta nóttin í nýju húsi. Tókum rúmið okkar, rúmföt og þá fatalarfa sem við sáum fram á að nota næsta dag, tannburstann - en gelymdum tannkremi, náttfötin og svo auðvitað morgunmat sem hvorki þarnaðist mjókur, íláta né áhalda þar sem slíkt er enn ekki til staðar. Áttaði mig reyndar á því í morgun að ég hafði líka geymt öðrum skóm en skítugu vinnustrigaskónum. Við innflutninginn lentum við í smá basli með eina húsgagnið sem fylgdi okkur í þetta sinn, rúmið, því rúmbotinn komst alls ekki upp stigann. En hlutum er reddað í sveitinni ") Fengum tvo 90 sm botna til að setja undir dýnurnar okkar en þurftum reyndar að smíða fætur undir annan botninn en það var auðsótt þar sem efni og öll verkfæri voru í orðsins fyllstu merkingu "við hendina". Þegar búið var að redda þessu var sett utan um sængurnar og rúmið gert tilbúið. Síðan var farið niður í eldhús og opnuð freyðivínsflaska og skálað - á stút - ef það er hægt. Uppþvottavélin enn ótengd svo það var ekkert verið að óhreinka nein glös - sem reyndar voru heldur ekki til staðar. Svo var laggst upp í og út um gluggan blasti við stjörnubjartur himinn - ekki slæmt það. Stillt og fallegt veður og útsýnið úr svefnherberginu ólýsanlegt. Í öllu þessu myrkri var svo fallegt að horfa út á fjörðinn, sjá ljósinn á Þingeyri og stjörnurnar á himninum - gátum merkt þau fáu stjörnumerki sem við þekktum en þrátt fyrir nafnleysi voru hinar stjörnurnar alveg jafn fallegar.

Veit ekki með hjátrúnna en ég lét mér nægja að flytja inn á sunnudegi þar sem sunnudagur er til sælu. Virðist samt hafa klikkað á öllu hinu. Vaknaði í morgun að því mér fannst ósofin - fannst ég vera nýsofnuð þegar klukkan hringdi í morgun. Þegar ég mætti svo í vinnuna fékk ég að heyra að ég hefði gleymt að telja alla glugga í húsinu í huganum áður en ég sofnaði og mátti engum gleyma. Hefði átt að strá salti í hornið á herberginu og setja þar líka pening. Ætli ég hefði ekki bara verið jafn ósofin og raunin var þar sem ég hefði verið upptekin við það fram á nótt að fylgja öllum hjátrúm, svo ekki sé talað um að rifja þær upp. Taldi í morgun gluggana í húsinu og komst upp í 20 - smá munur frá því að búa í kjallaraíbúð með 3 gluggum. Gæti verið að ég þyrfti að bæta í jólaseríusafnið áður en ég fer að skreyta nýja húsið. Versla það í dag um leið og ég kaupi saltið í hornin og get svo notað afganginn í hornin með saltinu. Er samt sátt við það að þrátt fyrir léttan svefn og mikið annríki í nótt voru þetta engar martraðir. Spurning hvort ég þurfi eitthvað að semja við álfana í steininum fyrir utan áður en ég fæ góðan nætursvefn. Geri mér grein fyrir því að það eru ekki allir í kringum mig jafn sannfærðir um tilvist þeirra og spurning hvort þeir séu enn sárir eftir að keyrt var yfir litla steininn um daginn. Greyin hafa fengið að vera í friði í 40 ár og svo er nú allt í einu endalaus umferð, kerrur, rusl út um allt og bílar komandi og farandi allan liðlangan daginn. Hafa hingað til verið lausir við það á nóttunni en nú er breyting þar á. Endilega ef þið vitið hvernig ég kem til þeirra skilaboðum þá megið þið láta mig vita! Líka ef þið eruð með á hreinu hjátrú sem tengist því að flytja í nýtt hús þá endilega deilið þeim. Tek kannski eina fyrir í einu svo ég geti verið viss um áhrif hverrar og einnar.

Það verða því haldin jól í Mið-Hvammi þetta árið. Póstkassinn vonandi kominn upp til að taka á móti jólakortum - þeim sem ekki fara í Ásgarð en þau ættu nú samt að berast á endanum ") Nýja heimilisfang er Mið-Hvammur, 471 Þingeyri.

Enn engar myndir en þegar ég næ mynd af innviðum hússins sem einhvernveginn gefur góða heildarmynd þá fara þær inn. Á stundum sjálf erfitt með að sjá út hvað myndirnar sýna.

 Kveðja, Signý


Allt að gerast!

Nú gerast hlutirnir hratt! Held það komi meira að segja vinnimönnunum sjálfum á óvar! Öll opnanlegu fögin komin í, ný útihurð komin í, búið að grunna og pússa, spartla veggi og loft (að mestu), vatn og rafmagn komið inn í húsið -  sem smám saman tínist inn í tengla - og þá er ég að tala um rafmagnið en ekki vatnið sem fer sína réttu leið en þetta er aðeins flóknara hér en ég norðlendingurinn þekki sem alin er upp við heitt vatn úr jörðu. Svoleiðis finnst víst enn ekki á Vestfjörðum eða allavegana ekki nógu nálægt okkur til að hægt sé að luma sér í það. Eitthvað hefur nú verið reynt að bora eftir því en árangurinn ekki sem skildi. Viktor segir reyndar að þeir hafi bara ekki borða nógu djúpt. Hefur auðvitað tröllatrú á sínum Vestfjörðum og fæst seint til að trúa því að þar finnist ekki heitt vatn eins og annarsstaðar. Píparinn er því búinn að fá að leika sér helling með dótið sitt því til að hafa gólfhita þarf auðvitað rafmagnstúbu til að halda því öllu heitu og alskyns pípur, kistur, mæla, krana, dælur og loftsíur og þar fyrir utna þarf síðan hitakút til að geta nú fengið heitt vatn úr krana og til að sturta sig. Gólfhitinn fór semsagt í gang í gær og væntanlega verður neysluvatninu hleypt í pípurnar í dag - svona til að tékka hvort allt haldi áður en farið verður að setja upp eldhúsinnréttingu og leggja parket. Já, það er sko að líða að því öllu! Í gær voru gólfin flotið á efstu- og miðhæð og kjallarinn flotast í dag. Viktor var meira að segja svo hugfanginn af gólfhitanum að þegar hann "skrapp" í gær inn í hús til að kíkja var ég farin að halda að eitthvað væri að og húsið á floti því hann var búinn að vera svo lengi en þá var hann bara að horfa á steypuna þorna ofan á gólfhitanum - gat svo greinilega séð rendurnar í gólfinu - og gleymdi sér bara alveg. Það er nú ekki alltaf sem menn horfa hugfangnir á steypu þorna, en það er auðvitað öðruvísi þegar þessi sami maður lagði allan gólfhitann og allt sem honum fylgir. Sennilega eins og þegar foreldri horfir á barnið sitt gera óskup venjulegan hlut og finnst það vera mesti snillingur í heimi ") En held að steypan hafi öll þornað í nótt svo nú þarf að mála eldhúsið, innréttingu og held ég að það hafi verið á áæltun í dag að ná að minnsta kosti í hana í geymslu. Mikið verður nú gaman að sjá hana fara upp og ekki verra þegar verða líka komnar klósettskálar og hægt verður að pissa í húsinu. Efsta og miðhæð tilbúnar undir málningu og svo skilst mér að búið sé að skipuleggja hluti þannig að Kristján sonur Ragga parketleggi á kvöldin og fram á nótt svo hann fái nú frið. Áður en maður veit af verður maður farinn að mæla fyrir gardínum og búa um rúmin. Verður nú kannski eitthvað tómlegt af húsgögnum enda viðbrigði að flytja úr 60 fm í 120 fm.

 Nú bara verð ég að taka mig til og ná þessum myndum inn í tölvu til að geta sýnt eitthvað af þessu en ekki bara segja frá.

 Þar til síðar, Signý

 


Árinu eldri!

Þá hvílir á herðum mínum enn eitt árið til viðbótar! Merkilegt þó hvað "ellin" getur hjálpað til því maður þykist bara gleyma því hvað maður er gamall og þá reddast þetta. Svo er hægt að deila þessu með öllum hinum sem eiga afmæli í dag en ég var að komast að því að á vef Hagstofu Íslands er hægt að fá tölu um það hversu margir Íslendingar eiga afmæli tiltekinn dag. Ég deili sem sagt þessum afmælisdegi með 831 Íslending og þar af hafa 9 safnað nákvæmlega jafn mörgum árum og ég eða 34.

Í morgun heyrði ég líka talda upp þá merkismenn sem fæddust þennan dag og ber þar fyrst að nefna Jónas Hallgrímsson en flestir hafa sennilega orðið varir við það undanfarna daga að í ár eru 200 ár frá fæðingu hans og því bilkna ég auðvitað í þeim samanburði með mín 34 ár og kannski í öllum samanburði við þann mann. Annar merkismaður var Jón Sveinsson - Nonni en 150 ár eru frá fæðingu hans og Bjarki Sigurðsson (handknattleiksmaður) er víst 40 ár í dag. Þá erum við nú komin í tölur sem hægt er að bera sig saman við og takið eftir allir eru þeir eldri en ég....hehehe

Treysti því að þig eigið góðan dag í dag en sjálf hef ég einsett mér að njóta hans ")

Kveðja, Signý afmælisbarn


Deplóttir veggir og skítugir skór

Nýjustu fréttir af Vestfjörðum eru þær að nú eru allir veggir deplóttir eftir hörku vinnu við spartl-púss-spasl-púss. Hrikalega duglegri aðstoðarmenn sem ég fékk um helgina og rosalega notalegt að fá fjölskylduna í heimsókn. Nú er fólk að ná áttum með staðsetninguna á mér og geta miðlað því áfram. Það er svo erfitt að lýsa því í orðum hvernig umhverfið er og verður alltaf voða einfalt eins og - fallegt - eða - dalir og fjöll - eða - spegilsléttur fjörðurinn. Mér finnst ég voðalega heppin að fá hús á svona fallegum stað en eins og ég segi - fólk verður bara að koma og skoða, það er svo erfitt að lýsa þessu.

Skítugir skór? Jú það er nú vegna þess að verið var að moka ofan í skurði og þjappa ofan í þá. Meira að segja paufast við það í myrkri langt fram eftir kvöldi. Hafði smá áhyggjur af því að ég væri að þræla mömmu og pabba út en held nú að við höfum náð ágætu jafnvægi í þessu. Farið mátulega snemma á fætur og af stað inn í Hvamm. Vorum nú samt að mestu samfellt fram á kvöld en menn fengu nú aðeins að nærast og slaka á svona inn á milli. Mesta púlið kannski á mánudagskvöldið þegar við vorum að moka yfir rafmagnsstrenginn í skurðinum og svo skilst mér að Viktor og pabbi hafi verið í því þriðjudagsmorgun líka en þá var ég farin í vinnuna - eins og fín frú á meðan hinir voru að puða í húsinu. Langar nú stundum að hafa meiri tíma í húsinu mínu, merkilegt hvað þessi vinna getur þvælst fyrir manni. Held nú samt að ég hafi ekki nógu mikið vit á byggingaframkvæmdum til að endast þar eða kannski frekar að hinir entust með mér. Mis gáfulegar athugasemdir sem ég kem með eins og er þannig að ef greyin ættu að hafa mig hangandi yfir sér allan daginn alla daga yrði það örugglega eitthvað skrautlegt.

Það sem nú er að gerast er að búið er að setja  opnanleg fög í alla glugga, rotþróin komin í jörðu og búið að leggja að henni, rafmagnsstrengurinn er kominn í skurðinn og verið að púsla saman rafmagnstöflunni, rörin fyrir vatnsleiðsluna á leiðinni og þegar þetta smellur allt saman verður hægt að setja upp hitakút og hitatúbu fyirr gólfhitann og þá............verður hægt að fara að kynda húsið svo hægt sé að mála og ja...........þá fer nú að styttast í að hægt sér að flytja inn. Eins og er eru of miklar hitasveiflur í húsinu til að hægt sé að fara að mála veggi og fundum við fyrir því að spartlið var svooooooo......... lengi að þorna út af kulda í veggjum. Einhver frágangur eftir að utan en það beið vegna glugganna en fljótlega verður hægt að taka niður stillansa og klæða neðsta partinn af húsinu.Myndir! Hendi inn í albúm nokkrum myndum en því miður vantar enn fyrstu myndirnar. Þessar myndir sýna þó nokkuð vel alla vinnuna sem búið er að leggja í kofann ") Þar til næst, Signý 

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband