Sveitasæla

Já, ég verð nú bara að segja það að ég kann best við mig í sveitinni minni. Slíkt finnur maður auðvitað best þegar búið er að þvælast um borgina og endasendast um allt.

Frábært að kíkja í borgina og hitta allan þennan fjölda og fá að taka þátt í stóru athöfninni þegar hann frændi minn fékk nafnið sitt fallega - Jökull! Nú eiga þau þá Jökul og Frosta. Lékum okkur nú aðeins með nöfnin enda svo skemmtileg tenging í nöfnunum - "Jökull hleyptu Frosta inn" - "Frosti vertu góður við Jökul - Jökull ekki kássast í Frosta ....... endalausar hugmyndir.

Mér hlaust sá heiður að lesa upp úr guðspjalli í athöfninni ásamt stóru systur - en tókst reyndar að hafa orðið af prestinum sem átti að vera með smá innlegg á milli upplestra hjá okkur en ég bara vissi það ekki. Ekki á hverjum degi sem maður talar yfir prest í miðri athöfn. Held að hún fyrirgefi mér nú alveg en mér var bara bent á þetta eftir á. Gengur bara betur næst ") Mikið sérdeilis falleg kirkja Garðakirja þar sem pilturinn var skírður. Hlý, notarleg og mátulega stór. Var nú frekar stolt af sjálfri mér hversu tímanlega ég var í kirkjunni en ég lagði mig alla fram og var þá mikið að hugsa um hana móður mína sem var alveg á nálum yfir því að við kæmum of seint.

Eitthvað var nú kíkt í búið en alltaf verður minna úr því en maður ætlar sér. Þó var ákveðið hvenig skiptiborð skyldi kaupa og er það nú á leiðinni vestur með Viktori. Fékk nú nett sjokk við að skoða suma af húsgögnunum sem auðvitað eru rosa flott og gaman að hafa inni í barnaherbergi - ævintýraleg og falleg en að tvöfaldur skápur 120x200 geti kostað 258.000.- það fannst mér full mikið.

Það eru fleiri stórar ættir en Ránar-ættin. Fórum í ættarkaffi í móðurlegg Viktors og þar var nú aldeilis margt um manninn. Varð nú hugsað til þess þegar stóratburði ber að hjá okkur Viktori og bjóða á til veislu næstu ættingjum - oboj, oboj! Og þá erum við bara komin með tvo leggi en ekki alla fjóra inn í töluna.

Bumbubúinn hefur það gott. Stækkar vel og bröltir nú um í kúlunni. Fórum í vaxtarsónar og mældist þá 2100g eða rétt rúmar 8 merkur (33v) og stefnir því í 14-15 merkur (40) - svo lengi sem það dregst nú ekki úr hófi að koma sér í heiminn. Þó ekki sé búið að kíkja í umslagið - sem er svo hátt uppi - þá sagðist ljósmóðirin geta staðfest það sem hún sagði í fyrri sónar. Komums að því hvort það er rétt ef við opnum umslagið við heimkomu. Miklar spár og spugleringar með kynið og enginn er með sömu söguna um sama hlutinn - staðsetningu á kúlu - hjartslátt - lögun kúlu - hálsmen yfir lófa - kyn ungabarns sem haldið er á. Þetta kemur allt í ljós! Viktor stendur við sitt og segir að þetta sé stelpa og var ég eiginlega farin að hugsa meira um að ég yrði að halda að þetta væri strákur svo allavegana annað okkar hafi rétt fyrir sér!

Mikið var nú notarlegt að koma heim í sveitina sína eftir ys og þys borgarinnar. Hefði auðvitað viljað taka fjölskylduna alla með mér en það er nú von á þeim fljótlega. Hló að sjálfri mér þegar ég kom heim á mánudaginn - henti töskunum inn - klæddi mig í lopapeysi - reyndar striga- en ekki gúmmískó og lallaði niður túnið til að sækja póstinn. Er maður orðinn sveitalubbi eða hvað.

 Jæja, ekki nema rétt örpistill í dag!

Kveðja, Signý


Fataskápur, ferðalög og skrítnir ferðalangar!

Það tilkynnist hér með að settur hefur verið upp fataskápur í Mið-Hvammi. Langþráð stund runnin upp því nú er hægt að hengja upp föt, raða í skúffur og hillur í stað þess að grauta í þeim í geymslukassa í von um að finna það sem leitað er eftir. Lofthæðin er næg og skáparnir það háir að lágvaxin húsmóðirin sér ekki fram á að nýta efstu hillurnar. Sagði Viktori að hann gæti hæglega geymt öll sín leyndarmál þarna efst en hann var fljótur að svara því að ætti hann leyndarmál þá myndi hann sennilega ekki fela þau í húsinu. Verð nú að kanna hvort hann hafi komið sér upp einhverri aðstöðu til þess annarsstaðar. Spurning hvort umslagið góða fari bara þarna upp og verði opnað þegar barnið er fætt til að sjá hvort ljósmóðirin hafi haft rétt fyrir sér.

P5080059 P5090070 P5090074 P5110075 P5140094

Vel á minnst. Nýjustu fréttir af kúlubúanum eftir 32. vikna sónar eru þær að það er nóg legvatn hjá því, stærðin í meðallagi miðað við meðgöngulengd, 2100g - um 8 merkur og stefnir í 14-15 merkur á 40. viku. Snýr sér með höfuðið niður en enn nóg pláss til að velta sér milli hægri og vinstri. Í þetta sinn var krílið ekki á því að láta sjá framan í sig, lág á grúfu með hendur fyrir andliti. Ytri ummerki kúlbúans verða sífellt greinilegri og eitthvað þarf móðirin að fara að spái í það að hvíla sig meira yfir daginn því það er ekki fyrr en hún leggst upp í rúm á kvöldin sem hún gerir sér grein fyrir því hversu þreytt hún er orðin og bjúgur farinn að setjast á hendur og fætur.

P5070058

Ekkert lát á ferðalögum Vestfirðinga. Ekki fyrr komin úr dekurferð til Akureyrar en lagt er í suðurferð. Tilefnið ærið því nýjasti meðlimur stórfjölskyldunnar, prinsinn í Melalind, fær nafn um helgina. Verða reyndar slegnar tvær flugur í einu höggi því á sunnudeginum er svo ættarkaffi hjá móðurfjölskyldu Viktors og ætli þriðja flugan verði ekki líka rotuð og kíkt í búðir - þá ættuð þið kannski frekar að ímynda ykkur míflugnager ")

Okkur tókst nú að vera samt eina helgi heima - hvítasunnuna sjálfa og þá afrekaði Viktor það að vinna bikar í töltkeppni sem haldin var á Fjölskyldudegi Storms - hestamannafélagsins hér fyrir vestan. Ekki verra að hann vann bikarinn á mínum hesti - þó hann hafi verið kynntur í eigu Viktor þá er hann nú samt minn. Varð nú smá sár yfir þessu en Viktor sver það af sér að hafa sagt nokkuð um það hver ætti hestinn við skráningu en sennilega hafi bara verið gert ráð fyrir því.

Fjölgar enn í fjárhúsum og aðeins eitt lamb hefur fengið nafn síðan síðast og það var hún Dúdda til heiðurs fermingarbarninu honum Dúdda sem fermdist á sunnudag. Nú fer þessu þó að ljúka og í gær voru aðeins tvær kindur eftir óbornar. Lömbin farin að skoppa um fyrir utan fjárhúsið þegar veður leyfir.

Stundum er maður nú lengi að átta sig á nýjum högum sínum. Áttaði mig á því þegar ég spurði Viktor út í mikinn fjölda Tjaldsins hér á Vestfjörðum. Miklar vangaveltur hjá mér hvort meira væri um Tjald hér á Vestfjörðum en annarsstaðar því mér finndist ég alltaf vera að sjá hann og fleiri en einn í einu. Eftir smá umhugsun þá snerist nú dæmið eiginlega við þar sem sennilega væri ég kominn á slóðir Tjaldanna sem halda sig lítið innan borgarmarka. Örugglega álíka margar Lóur á túninu heima þegar nánar er að gáð. Það eru einfaldlega fleiri fuglar í sveitinni en á grasspildum borgarinnar.

Húsmóðirin alltaf jafn myndarleg í eldhúsinu. Þið kannist ef til vill við svikinn héra en nú hefur ný útgáfa litið dagsins ljós af þessum klassíska rétti sem kallast svikinn héraungi - að mestu leiti eins og sá gamli en allur minni um sig. Hentar fínt fyrir tvo ")

Og skrítnir ferðalangar já! Ef þið fréttið af tveimur sveitalubbum á ferð milli Borgarness og Þingeyrar þá gæti verið að ég vissi deili á þeim. Þannig var að Viktor og Ragnar, bóndinn á Neðsta-Hvammi, fóru í feiknar ferð að sækja gröfu sem búið er að fjárfesta í fyrir vinnumennina. Voru nú óskup bjartsýnir þegar þeir lögðu af stað snemma morguns á þriðjudag og ætluðu sér að vera komnir heim um kvöldið. Planið var nefnilega að nýta Breiðafjarðarferjuna Baldur sem styttir leiðina til muna hvað km varðar en sparar þó lítinn tíma. Þetta tókst nú ekki alveg hjá þeim og það sem úrskeiðis fór var að blessuð grafan keyrir ekki hraðar en 30 km/klst. Ferjan fer bara eina ferð á dag svo úr þessu varð næturgisting í Stykkishólmi auk þess sem þeir skoðuðu Stykkishólm hátt og lágt á meðan þeir biðu eftir að ferjan færi.

Jæja, heyrumst að viku liðinni. Þá verða 2x400 km að baki og ljóst orðið hvaða nafn prinnsinn fær.

 Signý


Með einkaflugvél norður á Akureyri!

Það var nú nokkuð skondið beina flugið okkar frá Ísafirði til Akureyrar. Reyndist vera einkaflug – fyrir utan fullorðna konu sem við í góðsemi okkar leyfðum að fljóta með. Fyrstu vístbendingarnar um að þetta yrði einkaflug voru nú þegar farið var að “hlaða” vélina – það voru nákvæmlega 3 ferðatöskur, einn stór IKEA poki og járningataska sem bíllinn trillaði með upp að vélinni. Það var nú allt og sumt og tók ekki langan tíma að koma því fyrir. Flugfreyjan nennti ekki einu sinni að nota hátalarakerfið til að bjóða okkur velkomin og segja frá öryggisatriðum heldur stóð hún bara við hliðina á okkur og þuldi upp það helsta. Fengum auðvitað fyrirtaks þjónustu en þó gafst ekki mikill tími til að láta stjana við sig þar sem flugið tók AÐEINS 40 MÍNÚTUR. Þetta voru því notarlegheit frá upphafi því notarlegheitin héldu áfram þegar komið var heim á Hótel Mömmu. Menn sváfu nú misjafnlega lengi en nefnum þar engin nöfn en tvö svefnpurkunöfn byrja á V.

Á fimmtudeginum, 1. maí gerðum við Viktoría mikla leit að opinni sundlaug. Reiknuðum bara með að Sundlaug Akureyrar væri opin en það reyndist ekki svo – auðvitað bara jákvætt að lokað sé á þessum degi en það einhvernveginn var ekki í hausnum á manni. Glerársundlaug var líka lokuð en við vorum komnar heim þegar mamma benti okkur á Þelarmörk og þar komumst við í sund, nutum okkar í heitri lauginni og Viktoría fór nokkrar ferðir í rennibrautina – sjálf ákvað ég að sleppa því – reyna að vera pínu virðuleg “)

Vorum mátulega lengi og auðvitað glerfínar eftir baðið þegar við fórum á tónleika til að hlusta á Örnu Guðbjörgu spila á sínum fyrstu tónleikum – trommaði með stæl svísan sú. En það er ekki nóg að fara í sund og á tónleika. Sundferðum fylgir auðvitað ís. Það voru farnar ófáar ferðir í Brynjuís – einn á dag en ekki þar með sagt að sundferðirnar hafi verið jafn margar. Viktor varð hálf súr yfir því að fá ekki að fara 2svar einn daginn. Honum er nær að segja að Greifapizzur séu ekki góðar – kann ekki gott að me…éta.

Kíktum á ömmu í Rán svona til að hún gæti klappað á kúluna og heilsað upp á íbúann þar. Helgin snérist satt að segja svolítið mikið um sýningu á kúlunni sem fer óðum stækkandi. Hugrún vinkona er með samanburðarkúlu – 3 vikum á eftir mér. Svo voru forvitnar frænkur sem vildu sjá hvar í óskupunum svona lávaxin manneskja geymdi kúlu. Ótrúlegt en satt hún hangir þarna – mest öll framan á og ýmist hvort fólk telur það stelpu eða strákakúlu. Umslagið varð nefnilega eftir fyrir vestann svo það hefur ekki enn komist í geymslu til Ölfu.

Einkennilegt með hann Viktor. Þegar við förum norður þá dettur honum alltaf í hug að renna vestur í Fljót – eitthvað vitlaustar tengingar þar finnst mér. Hjá mér er að fara norður að fara á Akureyri en einhvernveginn hafa Fjótin læðst inn hjá honum. Hann fór um áramótin og aftur núna. Heilsaði upp á Sigga sem var með okkur í hestaferð og náði í þetta skiptið að fljóta með tveimur öðrum ferðafélögum úr margrómaðir hestaferð. Þeir skoðuðu hjá Sigga efnileg trippi og þvældust svo um sveitir landsins og dreifðu hestum vítt og breitt.

Þegar maður er svona merkilegur gestur á Norðurlandinu er auðvitað drifið í því að henda saman einni afmælisveislu þó afmælisdagurinn sé ekki kominn. Fengum þessa dýrindis veislu hjá Örnu og Ölfu. Fámennt og góðmennt – auðvitað með trommuundirspili af misjafnlega færum afmælisgestum.

Auðvitað lentum við svo í því á sunnudeginum að flugi til Ísafjarðar var frestað. Óhagstæð vindátt. Komumst nú reyndar að því seinna um kvöldið að það hafði lægt og flogið með alla blakarana milli Ísafjarðar og Reykjavíkur en ekkert verið að ómaka sig við að sinna leigufluginu. Einfaldlega ekki vélar og tími í það greinilega. En þannig græddum við auka nótt fyrir norðan og hver kvartar yfir því. Viktoría græddi meira að segja svo mikið að hún var send beint suður í stað þess að þurfa að fara með mömmu sinni keyrandi að vestan. Prinsessur eru og verða prinsessur – hvort sem það er fyrir tilviljun eða hvað.

Það er nú alltaf notalegt að koma heim aftur. Vestfirðir tóku á móti okkur með þessarri líka blíðu og nú vaknar maður við fuglasöng og lækjanið. Kominn sá tími að ég get bara rölt niður á veg til að ná rútunni. Var nú ekki fyrr mætt á svæðið en ég fékk fyrsta vá-ið við kúlunni. Það eru víst alveg tveir mánuður eftir og ég get ekki lengur kvartað yfir að kúlan sjáist ekki.

Jæja, verður ekki meira sagt í þetta sinn. Fataskápurinn bíður uppsetningar – mikið rosalega hlakka ég til.Fjölgunin er hröð í fjárhúsum og nú þarf bara að drífa upp símaskrána svo fleir lömb fái nú nöfn “)Kveðja, Signý 

Spenningur!

Það er auðvitað ekki fimmtudagur en tilefnið er ríkt því nú er spennan að ná hámaki. NORÐURFERÐ! Hægt að telja í klukkustundum núna! Virðist viðra vel til flugferða í dag svo ég er enn nokkuð róleg með það en íslensk veðrátta náttúrulega eins og hún er "/

Viktor kom vestur í gær - náði að klára verkið fyrir sunnan og kom með drekkhlaðna kerru m.a. barnavagn, barnabílstól og já FATASKÁP! Verður farið á fullt við að púsla honum saman þegar við komum aftur vestur. Mikið er ég búin að þrá fataskáp og Viktor þessi snillingur að drífa í því - ég hefði sennilega þurft að skipuleggja aðeins betur og spá meira en hann bara sá´ann og keypt´ann. Þegar búin að púsla saman vagninum og stilla upp barnabílstólnum ") Það er aðeins lengra í að það verði notað!!

 Kveðja á miðvikudegi,

 Signý ferðalangur


Gleðilegt sumar!

Gleðilegt sumar allir! Vonandi að allir hafi getað notið sumardagsins fyrsta. Ótrúlegt hvað svona dagar geta verið notarlegir. Stússaðist í hestunum - fór í sund - fór á tónleika - þáði matarboð - reyndi að blogga en var alveg tóm.

Greyið hestarnir ekki í neinni notkun núna þar sem bóndinn er á suðurlandi að vinna - greyið ég að vera ein heima! Reddaðist nú svona einn dag en mig grunar að helgin verði löng. Hann keppist við að klára verkið svo hann komist nú hingað vestur áður en við fljúgum norður á Akureyri. Takið eftir því að það er beint flug!!!!! Það er komið að því - skyldmenni að mæta á Vestfirðina og þá flýr maður! Bið frænkur mínar enn og aftur afsökunar á þessu en það bara er alveg nauðsynlegt að nota svona tækifæri. Þusaði nú ekki lítið yfir því síðast þegar ég flaug norður að ég þyrfti að millilenda í Reykjavík og bíða þar í a.m.k. 1 klst - sem nýtist ekki í neitt - og ferðatíminn því í heildina 2 tímar og 25 mínútur. Hélt því þá fram að það gæti ekki tekið meira en 40 mínútur að fljúga á milli beint - og það reyndist rétt! Næsta miðvikudag fljúgum við frá Ísafirði til Akureyrar á 40 mínútum ") 

Tónleikarnir voru í félagsheimilinu á Þingeyri og þar skemmtu dýrfirskir tónlistarmenn. Nokkuð gaman af því en fjölmennasta atriðið á tónleikunum var held ég harmonikuleikararnir - það er nú alveg þekkt að til sveita spili margir á harmoniku en boj ó boj. Gaman af því!

Bumbubúinn hefur það gott! Minnir reglulega á sig með sparki - sem reyndar er farið að breytast í brölt og stundum hef ég það á tilfinningunni að ég þurfi að hörfa undan þegar spyrnt er í. Viktoría átti ekki til orð þegar við lágum uppi í rúmu um síðustu helgi og barnið byrjaði að brölta þannig að hún sá hreyfingu utan frá. Í síðustu mæðraskoðun hafði krlílið líka skoðun á því hvað væri verið að potast með það og sparkaði á móti þegar ljósmóðirin reyndi að hlutsta eftir hjartslætti.

 Jæja, varla fleira í fréttum þennan daginn.

Verð fyrir norðan næsta fimmtudag svo það er spurning með bloggið - hvort það bíði eða hvað. Hvort ég verði of upptekin við að hafa það gott! Kemur bara í ljós!

Kveðja, Signý

 P.s. Hreinn, Beinteinn og Marteinn biðja að heilsa. Hefur nú fjölgað í fjárhúsum en alger nafnaþurrð þó.


Vor í lofti

Jæja, þá held ég bara að vorið sé komið á Vestfjörðum. Nú vakna ég við fuglasöng á morgnana þó ekki sé mikið um tré eða runnan í kringum mig en mig grunar nú að fuglarnir nýti sér það að ekki er alveg búið að ganga frá húsin okkar að utan og hægt að koma sér vel fyrir í ýmsum holum og glufum. Annar vorboði sem ég er kannski ekki jafn hrifin af eru blessaðar flugurnar og ekki eykst ánægjan með þær þegar bóndinn tekur sig til og eitrar fyrir þeim þannig að allar gluggakistur eru eins og fjöldagröf - eilíft með ryksuguna á lofti til að fjarlægja þessa vorboða. Þeim er velkomið að suða fyrir utan gluggann eins og fuglunum að syngja fyrir utan en hvorugt vil ég hafa innandyra.

.....og svo eru komin lömb! Já - sauðburður er hafinn hjá fjárbóndanum Signýju. Byrjaði með tveimur hrútum í fyrra dag og svo bættist einn við í gær. Hafa þeir fengið nöfnin Hreinn, Beinteinn og Marteinn. Það rifjast nú alltaf upp fyrir mér þegar talað er um sauðburð sú gullna stund þegar ég uppgötvaði að lömb væru með nafla! Og ég er ekki að tala um þegar ég var 5-6 ára að byrja í grunnskóla - nei ég var orðin 25-26 ára og komin í háskóla. Þannig var nefnilega eitt vorið að við Hulda Þórey fórum í sveitina hennar til að vinna verkefni þar svo við gætum fylgst með fjárhúsum í byrjun sauðburðar. Í einni ferð okkar upp í fjárhús bar ein kindin þessu myndarlega lambi og þegar það stóð upp sá ég naflastrenginn hanga niður og áður en ég vissi hafði ég misst út úr mér - "nei, eru lömb með nafla!" Hulda Þórey leit nú fremur vonleysislega á mig og svaraði bara - "já, hélstu kannski að lömbin kæmu úr eggi?" Þá var ljóst að þessi upphrópun mín var kannski svolítið vanhugsuð en ég hafði hreinlega ekki spáð í þetta með naflann áður. Auðvitað vissi ég að þau kæmu ekki úr eggi en athugasemd Huldu Þóreyjar átti nú fullar rétt á sér fyrir það. Kannski er stundum gott að tala við sjálfan sig - í hljóði - og sortera svolítið það sem frá manni kemur ")

Bar það nú undir sam-bændur mína hvort við ættum að setja upp heimasíðu eins og ég sá um daginn - kindur.is - þar sem hægt væri að ættleiða kind. Snilldar hugmynd en verra að þurfa að stela henni. Var meira að segja svo frökk að leggja til að við útfærðum hugmyndina þannig að við settum upp vefmyndavél í fjárhúsin og hægt væri að kíkja þangað inn hvenær sem væri ") Hefði kannski átt að hugsa þá hugmynd líka og ræða það við sjálfa mig - í hljóði. En þetta var nú bara til að hafa gaman af!

Nú er heldur ekki ófært um heiðar og meira að segja er búið að moka Hrafnseyrarheið og verið að vinna í því að moka Dynjandisheiði. Ekki að það þyki stórfréttir á hverju heimili landsins en þetta er mikið mál á mínu heimili. Honum Viktori mínum er það mikið kappsmál að þessar heiðar séu mokaðar því þá kemst hann á skemmri tíma suður - ekki það að hann sé að fara þangað um hverja helgi en bara að vita af því að hann geti það er honum mikil hugarró! Vissulega er þetta styttri leið suður til Reykjavíkur en ekki bara það því ég held ég að Dýrfirska stoltið sé honum hamlandi þegar keyra á Djúpið - hann einfaldlega getur ekki sætt sig við að sú leið sé eina leiðin yfir veturinn. Þannig að nú eru bjartir tímar framundan hjá mínum. Aðrar leiðir eru auðvitað líka færar og nú rennur maður í vinnuna án einkabílstjórans og vegir marauðir - Gemlufallsheiðin og allt.

Hrafnseyrarheidi

Hrafnseyrarheiði þar sem stálið er hæst!

Var ég ekki búin að lofa fræðslu um Dýrafjörðinn. Í einfaldri, hlutdrægri útgáfu - örlítið smitaðri af sönnum heimamanni - þá er Dýrafjörður einfaldlega fallegasti fjörðurinn, söguslóðir Gísla Súrssonar og við hann stendur hæsta fjalla Vestfjarða - Kaldbakur 998 m hár. Skaginn milli Dýrafjarðar og Arnarfjarðar hefur fengið viðurnefnið "Vestfirsku alparnir" vegna þess hversu lítið undirlendi er á fjallstoppum, fjöllin almennt hærri og formfegurð þeirra minnir helst á hina einu sönnu Alpa (http://vesturferðir.is - Gönguleiðir í vestfirsku ölpunum). Útsýnið ólýsanlegt er mér sagt en ég hef enn ekki orðið svo fræg að ganga á fjallið en þekki hann í sjón og get vísað fólki á rétan stað. Það bíður betri tíma að ég snari mér upp á þann topp. Fyrir þá sem eru á ferðinni þá er líklegast að þeir rambi á Ísafjörð en þaðan þarf að fara í gegnum göngin, ekki beygja inn í Súgandafjörð - við hann stendur þorpið Suðureyri - heldur halda áfram og enda þá í Önundarfirði - við hann stendur Flateyri - yfir Gemlufallsheiði og í Dýrafjörðinn en þá blasir Þingeyri við. Bærinn okkar, Mið-Hvammur- stendur innar við fjörðinn og því örlítið styttra að koma til okkar en á Þingeyri.

alparnir_stor

Vestfirsku alparnir milli Dýrafjarðar og Arnarfjarðar

Látum það nægja í bili af fræðslu um Dýrafjörðinn. Á sjálf eftir að kynna mér fleiri staðreyndir og jafnvel koma mér í það að fara alla leið inn í fjarðarbotninn en þangað hef ég enn ekki komið. Verður þó að fljóta með að á Þingeyri er dýrindis sundlaug sem setur punktinn yfir i-ið á góðu ferðalag-i.

Jæja, ekki alveg að missa mig í löngum pislum þennan fimmtudaginn.

Heyrumst því bara næsta fimmtudag! Sumardaginn fyrsta ")

Signý

 


Hæ hó jibbí jei og jibbí jei - það er kominn fi-immtudagur!

Hvað skyldi vera í fréttum í dag? Alveg ólm vil ég koma þeim á framfæri eftir viðbrögðin í síðustu viku. Virkilega gaman að fá svona "komment" á móti "). Ekkert nauðslynlegt að gera það alltaf en gaman þegar fólk lætur vita af sér. Fólk verður þó að gera sér grein fyrir að það var engin tilviljun að fimmtudagar urðu fyrir valinu - þegar líður að vori fjölgar fimmdudagsfríum og þegar maður setur sér markmið er maður auðvitað alltaf með einhver tromp upp í erminni ef þau skyldu nú ekki alveg ganga eftir - gæti farið á báða vegu - að meira verði skrifað vegna fimmtudagsfría eða þá að það verði notað sem afsökun fyrir að skrifa ekki!!

Svo ég hlusti nú á þá sem tjáðu sig síðast þá legg ég mig fram við að skrifa á fimmtudögum enda ekki ætlunin að ræna fólk fimmtudögum og hér eftir - fyrir þá sem ekki hafa tíma í að lesa langa pisla mun ég í byrjun segja frá því sem ég ætla að tala um og það nægir þá kannski sumum. Hinir sem hafa tíma lesa svo restina (hehehe)!

Inngangur. Í þessarri bloggfærslu ætla ég að fjalla um eftirfarandi þætti.

- 1. apríl: Náði að plata Viktor.

- Vatnslagnir í sveit: Þegar allt frýs gerir maður sér grein fyrir hversu háður vatni maður er.

- Sjómannskona og eldamennska: Hvað gerir sjómannskona ein yfir heila helgi og hvað eldar maður fyrir svanga sjómenn þegar þeir koma í land seint að kvöldi?

- Ferðalög framundan: Óvænt heimsókn og skírn í Reykjavík.

Pistill dagsins

Og þá hefst hinn eiginlegi pistill. Ég hreinlega gleymdi að segja frá því síðast að mér tókst að láta minn mann hlaupa 1. apríl. Þetta var svona tækifæri sem bara datt upp í hendurnar á mér og hefði verið þvílík synd að sleppa því. Eiginlega vara það fyrir einskæra tilviljun að það var á þessum degi sem það féll til en afskaplega heppilegt. Þannig var að helgina fyrir var 40 ára afmæli á Þingeyri og féll það í okkar hlut að sjá um salatið - óskup einfalt, blandað salat í poka, vínber og Feta-ostur. Var sko ákveðið að halda upp á afmælið með dags fyrirvara. Viktor tók þá eftir Feta-lukkuleik sem var í gangi og átti númerið að koma í ljós þegar krukkan yrði tæmd. Það var bara gert á staðnum og minn maður í eldhúsinu svo hann tók sig til og skrifaði niður númerin. Henti krukkunum reyndar í frágangi enda með númerin á blaði. Bað mig svo að tékka á mánudeginum, 31. mars, þegar ég kæmist á netið í vinnunni hvort nokkuð væri vinningur en auðvitað gleymdi ég því. Á þriðjudeginum hins vegar rak ég augun í miðann og fór á netið. Sá þar náttúrlega að ef væri vinningur á númerinu þyrfti auðvitað að framvísa krukkunni - þessarri sömu og Viktor var búinn að henda - í ruslagám á Söndum. Sló inn lukkunúmerin - tvær krukkur - og auðvitað var enginn vinningur. Það var sirka á þeirr stundu sem kviknaði á ljósaperunni með púkahornin. Var því fljót að senda honum sms í gegnum netið og sagði að það væri vinningur á öðru númerinu. Hann yrði að sækja krukkuna. Ekkert mál að plata svona í gegnum sms - gæti það aldrei beint í gegnum síma eða augliti til auglitis. Þá hringir auðvitað síminn - var í vafa hvort ég ætti að svara því ég vissi að ég kæmi strax upp um mig. Þá var Viktor kominn af stað að ná í krukkuna og það svosum nægði mér - hann var hlaupinn - var líka hvort eða er búin að sjá hann fyrir mér í huganum ofan í ruslagámi að leita að krukkunni. Benti honum þá á að það væri 1. apríl. Það versta við þetta var samt að ég var skjálfandi á beinunum það sem eftir var dags og fram eftir kvöldi því ég var svo viss um að hann myndi hefna sín rækilega - en þessi engill lét mig alveg í friði. Notaði nú samt tækifærið eftir að hann áttaði sig á hvaða dagur var og gerði tilraun til að narra samstarfsfélaga sína - sagði þeim að það væri rúsnnesk orrustuflaug á flugvellinum á Söndum - þeir yrðu að koma að sjá hana og þeir voru víst næstum komnir út þegar einn þeirra áttaði sig á deginum.

Vá, þetta var langt! En höldum ótrauð áfram.

Hafið þið gert ykkur grein fyrir hversu háð vatni þið eruð? Lenti í því um síðustu helgi að það fraus í lögninni að bænum og ekki vatnsdropa að fá. Síðan heyrir maður af herferð Unicef þar sem verið er að safna til að styrkja vatnsverkenfi í þróunarlöndunum. Mér fannst mál að geta ekki tannburstað mig, sturtað niður í klósetti, farið í sturtu, setja uppþvottavélina í gang, þvegið þvottin, skúrað eða nokkuð annað. Var þó ekki meira mál en það að ég renndi út á Þingeyri og fór þar í sund. Tók meira að segja með mér tóma vatnsflösku til að fylla á og eiga til að drekka. Hversu þróað er það! Vil reyndar halda því fram að það þurfi að fara að endurreikna vatnsbirgðir heimsins eftir að ég fékk ísskáp með klakavél og vatni. Þetta reddaðist nú samt seinni part dags. Málið var að snjórinn var farinn af rörinu og því lá það bert á jörðinni á smá kafla sem varð til þess að fraus - ekki lengur snjóskafl til að halda á því hita - hljómar furðulega en nokkuð til í því samt.

Upplifði það um helgina að vera einmanna sjómannskona. Viktor fór á sjó með pabba sínum - komu nú reyndar í land um kvöldið - og fóru snemma morguns næsta dag. Alltaf tekst manni þó að fylla daginn. Komst nú reyndar að því - eða öllu heldur fékk það staðfest - að ég tala sennilega með meira móti við sjálfa mig. Mestu vandræðin voru að vita hvað maður eldar handa svöngum sjóurum þegar þeir koma í land. Ekki leist þeim á steikt grænmeti og pasta eins og ég fékk mér og endaði með að greyin þurftu bara að bjarga sér sjálfir. Sunnudagurinn var þó betri fyrir þá enda komnir fyrr í land - þá fengu þeir hrygg að hætti hússins en húsbóndinn sjálfur gerði sósuna því þessir tveir sósukarlar hafa ákveðna skoðun á því hvernig það á að vera.

Enn og aftur leggst ég í ferðalög. Væntanleg skírn í borginni um hvítasunnu - reyndar hef ég hingað til alltaf sagt ferming - ætti kannski að redda bara giftingunni líka og ljúka þessu af. Hlakka svo mikið til að fá að taka aðeins á frænda enda sýnist mér á myndum að hann sé allur að stækka. Þá verður líka hægt að dáðst meira af prinsinum. Svo var ég að spá í að hafa hina ferðina leyndarmál en svo fannst mér það óréttlátt því ég hlakka svo til og því ekki að leyfa hinum að hlakka líka til ") Þori alveg að treysta því að norðanfólk vilji fá mig í heimsókn. Fékk nefnilega þetta snilldartilboð - mamma benti mér á það - beint flug frá Ísafirði til Akureyrar. Ég hafði rétt fyrir mér, það tekur ekki nema 40 mín að fljúga þetta. Verð sem sagt fyrir norðan um mánaðarmótin.

Frænkum mínum sem eru að koma á blakmót ég var búin að lofa heimsókn í fallegasta fjörðinn verð ég að svíkja en lofa bara í staðinn að sýna þeim fallegasta fjörðinn seinna. Var að reikna það út að ganni hversu langt er frá Ísafirði í Súganda (22 km), frá Ísafirði á Flateyri (17 km) en svo veit ég auðvitað hvað er langt í fallegasta fjörðinn Dýrafjörð og út á Þingeyri (48 km) en samt aðeins styttra heim til mín, svona sirka 44 km. Verð nú að segja með fullri virðingu fyrir borgarbörnunum að ég vildi gjarnan sjá framan í frænkur mínar þegar þær keyra inn á Suðureyri. Minnist þess þegar Berglind var að fljúga og fór til Kulusuk í Grænlandi í 2 tíma og fannst það alveg nógu langt stopp. Ætli tilfinningin verði ekki svipuð með Suðureyri. Ætli ég taki ekki bara saman fyrir næsta fimmtudag pistil um Dýrafjörðinn og þær gætu þá í dauða tímanum milli leikja kíkt yfir. Á þetta fína strætókort sem sýnir leiðirnar í firðina þrjá fá Ísafirði, Súganda, Önundarfjörð og svo Dýrafjörðinn ")

Jæja, læt þetta nægja í dag! Verð þó að segja fréttir af veðrinu því nú snjóar aftur á Vestfjörðum og samkvæmt fréttum erum við innilokuð hér á vestfjörðum - sjálfkrafa orðin fríríki sem einhverjir tala um. Ófært yfir heiðar svo við höldum okkur bara heima!

 Kveðja, Signý

 


Dásamlegt páskafrí

Heljarinnar páskafrí. Var svo afslöppuð eftir fríið að ég nennti ekki einu sinni að berjast við ritstífluna síðasta fimmtudag - því kemur bara eitthvað núna 

Mikið rosalega hafði ég það gott í páskafríinu. Afrekaði það að fljúga að vestan, frá Ísafirði til Reykjavíkur (millilending) og norður til Akureyrar. Skrapp í eina fermingarveislu á laugardeginum og brunaði svo suður með mömmu og pabba á sunnudaginn. Var í viku fyrir sunnan að dáðst að nýja frænda og flaug svo vestur. Vantaði bara austurlandið til að ná hringnum. Í borginni byrjaði öll afslöppunin! Fengum þessa dýrindis orlofsíbúð og gátum ruslað til eins og við vildum og bara gengið inn og út eins og okkur hentaði. Auðvitað var markmið ferðarinnar að geta hitt nýja færnda og okkur tókst það bara bærilega. Óskup voru þau nú þreytt nýbakaðir foreldrarnir en það voru bara smá byrjunarörðugleikar og alltaf betra og betra upplitið á þeim eftir því sem leið á vikuna. Vorum algerar dekurdollur því enginn mátti heimsækja þau fyrstu vikuna - nema við! Nýttum okkkur það út í ystu æsar en held þó að við höfum alveg getað haldið okkur á mottunni. Pabbi gat aðeins kíkt á prinsinn er þurfti síðan að fljúga aftur norður í vinnu. Þar voru þeir kallar tveir heima, pabbi og Loki og höfðu það örugglega jafn gott og við kellurnar í borginni.

Lausar stundir notuðum við auðvitað til að kíkja í búðir og þar tókst okkur held ég bara nokkuð vel til. Festi mér meðal annars vagn undir ungann sem kemur svo með vorskipinu - vagninn sko þó segja megi að unginn komi líka með vorskipinu - eða þá frekar sumarskipinu! Kitlaði nú í puttana að kíkja í umslagið góða þegar ég var í verslunum og langaði að kaupa einhverjar flíkur fyrir ungann en umslagið ekki í seilingarfjarlægð og ekki hefur mér enn tekist að sannfæra Viktor um að kíkja í það því hann segist vita hvort er og þurfi ekkert að kíkja í það. Reyndar snerist mín sannfæring í ferðinni en það vegna jafn óvísindalegar staðreyndir og áður - ég var nefnilega að líta eftir honum Snjólfi hennar Höllu og í hillunni hjá henni fann ég spákúlu sem ég spurði fyrst hvort þetta væri stelpa - svarið var: my sources say no! Þá spurði ég: Er þetta strákur - og svarið var "probably". Síðan gerði Alfa hálsmenaprófið margrómaða og þar kom líka strákur. Þannig að....... hver veit. Það virðist þó vera bundið við verslanir þessi löngun því ekki hef ég enn kíkt í umslagið.

Það var svo notarlegt að vera með mömmu, Ölfu og Örnu þennan tíma. Bara að vera saman og njóta þess að geta gert það sem okkur langaði til. Erum nú ansi góðar saman allar hvort sem við erum í Reykjavíkurborg, London eða Kaupmannahöfn - stelpuferðir verða alltaf stelpuferðir ") Ein að leggja sig, ein að tromma, önnur að prjóna og hin að sauma út. Þvælast um borgina og allir geta gert það sem þá langar.

Komst yfir heilmikið fannst mér á þessum tíma. Fyrir utan allan þvælingin í búðir, heimsóknir til litla frænda og afslöppunar tókst mér að fara í eina fermingarveislu - í Perlunni. Fulltrúi Hvammara því það var systir Viktors sem var að ferma en Viktor "hinn heimakæri" víðsfjarri - kominn heim í heiðardalinn. Held að hann hafi ekki síður haft það gott en ég. Viktoría var hjá honum á Skírdag og þau fóru á töltkeppnina í reiðhöllinni. Formaður hestamannafélagsins hringdi nú í Viktor þegar hann var fyrir sunnan til að tékka hvort hann kæmi ekki örugglega - vissi meira að segja af fari ef ekki yrði flogið - eins og gerist nú gjarnan. Ætlaði ekki að missa mann úr keppni því þá kæmi hann ekki út öllum verðlaunapeningunum. Gott að fara í keppni viss um að fá pening!! Gerði nú grín af því að Viktor ætlaði að fara í töltkeppni á Neista og Neisti er þeim eiginleikum gæddur að hann töltir eiginlega bara - þarf mikið að hafa fyrir því að fá hann til að gera eitthvað annað. Lagði til við Viktor að hann gæti bara sent hann einan inn á völlinn og hann myndi tölta hringinn - knapalaus. Kannski ekki fallegt af mér að gera svona grín að þeim en þeir stóðu sig víst með prýði og lentu í 4. sæti, ekki viss af hve mörgum ")

Á páskadag hringdi ég nú í minn mann og vorkendi honum svolítið fyrir að vera aleinn heima því Viktoría var farin yfir á Ísafjörð en það virtist nú ekki há honum. Skildi nú ekkert í því fyrst, þegar ég spurði hann hvort hann væri búinn með páskaeggið, þá sagðist hann ekki vera búinn að finna það! Þar sem hann var einn heima spurði ég nú hvort hann hefði virkilega falið eggið sjálfur og nú finndi hann það ekki. Þá hafði Viktoría falið það áður en hún fór. Það endaði reyndar með því að hann þurfti að hringja í hana til að fá vísbendingar um felustaðinn. Lukkaðist þá að finna það og njóta þess. Málshættir skötuhjúanna voru - Augun eru spegill sálarinnar (VP) og Mjór er mikills vísir (SÞK).

Kúlubúinn hefur það gott en er eitthvað farinn að ganga á járnbirgðir móður sinnar. Fyrirferðinn er orðin meiri og því koma fötin úr verslunarferðinni í borginni sér sannarlega vel! Arna Guðbjörg var nú hálf hissa á þessum yfirgangi þegar hún áttaði sig á því að öll meltingarfæri væru kominn upp undir háls og krílið hefði restina af plássinu - hvurslags yfirgangur það væri nú strax í móðurkviði ")

 Jæja, læt þetta duga í bili enda góður pistill nú þegar. Stór skammtur þegar svikist hefur verið um. Hafið það sem allra best og gaman að sjá hvort einhver nenni enn að lesa bloggið svo endilega skrifið athugasemdir eða kvittið í gestabókina ")

 Bless! Signý


Síðbúin fimmtudagsfærsla

Bara að kvitta fyrir það að ég er sko búin að vera í páskafríi og því var ekkert bloggað síðasta fimmtudag - verður bara meira að frétta næsta fimmtudag. Búin að hafa það alveg ótrúlega gott og finnst eins og ég sé búin að vera í a.m.k. 3ja vikna fríi. Heyrumst því endurnærð á fimmtudag!

 Signý


Nýr frændi og páskafrí

Get nú ekki annað en byrjað þessa færslu á að dáðst að nýja frænda mínum. Skoða til skiptist myndirnar tvær sem ég hef. Yndisleg svona kraftaverk. Ég missi úr slag og fær tár í augun að horfa á myndirnar svo ég get ímyndað mér hversu stoltir foreldrarnir eru - já Jói og Hulda eru orðnir foreldrar þessa mynda pilts. Mikið hlýtur að vera yndislegt og ómöuglegt annað en að dáðst að eigin dugnaði að hafa getað skapað svona kraftaverk. Get ekki beðið eftir að hitta prinsinn í eigin persónu en veit að hann nýtur þess að vera í faðmi foreldranna - í þeirra eigin litla heimi sem fæddist með prinsinum - þar sem tíminn er afstæður og allt snýst um að dáðst að og næra þessa litlu veru á allan hátt - fæðu, hlýju og yl sem ég veit að þau hafa nóg af. Megum sennilega passa okkur að sprengja ekki utan af þeim sápukúluna af ákafa við að komast í tæri við prinsinn. Þennan tíma eiga þau og ekkert annað skiptir máli.

 Ég á nú alltaf erfitt með að sjá svip hjá börnum fyrr en ég sé augun og af þessum myndum sem ég hef finnst mér svolítill þrúti enn í augum en eitthvað kannast ég við þessa höku. Spurning hvort hann sé ekki bara líkur sjálfum sér - þannig bjargar maður sér þegar maður sér ekki svip. Annars hefur hann tvo myndarforeldra til að líkjast svo þetta verður nú ekki vandamál.

 nýi frændi 110308

 Styttist nú í að ég komist til að kíkja á prinsinn. Byrja á því að fara norður í eina fermingu og síðan suður í byrjun næstu viku. Fáraðist nú ekki lítið yfir því þegar ég var að panta flug héðan frá Ísafirði og norður á Akureyri. Komst að því að það tekur heila 2 tíma og 25 mínútur frá því ég fer í loftið hér og þar til ég lendi á Akureyri. Hélt því nú fram að sennilega væri ég fljótari að labba þetta! Auðvitað verð ég ekki á flugi allan tímann því það er klukkutíma bið á Reykjavíkurflugvelli - klukkutími sem ekkert er hægt að gera við - ekki einu sinni heimsækja frænda sinn. Tekur víst 7-8 tíma að keyra þetta þannig að það er allavegana styttra en það. Efast um að beint flug tæki meira en 35-40 mínútur - við hvern get ég talað svo þeir fari nú að fljúga þetta aftur?

Er að fara í fermingu hjá Frey frænda - við tvö erum einu meðlimir í Sauðafélaginu - og stolt af því! Örlítið búin að skemmta mér yfir því hvort ég eigi að stríða frænda mínum í fermingarveislunni - bara pínulítið. Hef nú þegar skemmt mér mikið við vangavelturnar. Þannig er að ég á eina góða sögu um hann Frey frænda minn frá því hann var pínulítill gutti. Hvort ég eigi að standa upp í veislunni og tilkynna að ég eigi þessa litlu sögu - og þó hann sé með mér í Sauðafélaginu - þá er ég nokkuð viss um að hann áttar sig á hvaða sögu ég er að tala um því greyið hefur fengið að heyra hana nokkrum sinnum. Hef trú á því að hann vilji nú ekki að allir heyri þessa sögu. Gæti síðan skotið á hann það hann geti alveg verið rólegur - því ég sé ekki að tala um þá sögu - hana geymi ég þar til í giftingunni hans. Setja svo einhverja sárasaklausa sögu í staðinn. Ég er sem sagt búin að sjá þetta alveg fyrir mér og skemmt mér mikið yfir því en spurning hvort raunveruleikinn fari eins með þetta. Ég kannski læt mér bara nægja að ímyndina og láti raunveruleikann eiga sig! Þeir sem ekki vita hvað sögu ég er að tala um verða bara að bíða eftir giftingunni hans - læt örugglega verð af því að segja sögnuna þá ")

Allt gott að fétta annars af Vestfirðingum. Bumbubúinn minn minnir reglulega á sig með sparki og er svo sannarlega búin að uppgötva þvagblöðru móður sinnar. Lág uppi í sófa einn eftirmiðdaginn og allt var á fullu - efaðist þá eitt augnablik um þessa sterku tilfinningu að þetta sé stelpa og sá fyrir mér lítinn gutta í fótbolta - ekki það að stelpur geta líka sparkað í bolta! Viktor hefur hins vegar ekki fengið að finna neitt spark. Hringdi í hann niður í stofu eitt kvöldið þegar ég var lögst upp í rúm og fann greinileg spörk - hann mætti en allt var orðið rólegt. Viktoría fann hinsvegar í gær spark og við erum því vissar um að þetta sé stelpa sem vill bara tala við hinar stelpurnar og lætur pabba sinn hafa meira fyrir sér.

Hlakka mikið til að fara í páskafrí. Er búin að nappa smá aukafríi þannig að ég verð í lööööööngu fríi. Fer norður á morgun og svo suður en ekki heim fyrir en eftir páska. Vaknaði nú smá von að Viktor kæmi kannski suður þegar hann frétti af því að hugsanlega yrðu Hrafnseyrar- og Dynjandisheiðar mokaðar fyrir páskaumferð sem þýðir að hann kæmist suður án þess að keyra "blessað" Djúpið. Hann var annars harður á því að vera bara heima og stússast í hestunum en við þessar fréttir sagði ég að það væri nú ágætt að hann kannski kæmi suður og við gætum kíkt vagn fyrir ungann og fleira sem sennilega er kominn tími til að huga að en við það jókst ekki löngun hans til suðurferðar. Furðulegt! 

Kveð í bili! Mjög stolt af sjálfri mér að hafa bloggað þrjá fimmtudaga í röð - þetta virðist ætla að ganga.

Signý


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband