Fataskápur, ferðalög og skrítnir ferðalangar!

Það tilkynnist hér með að settur hefur verið upp fataskápur í Mið-Hvammi. Langþráð stund runnin upp því nú er hægt að hengja upp föt, raða í skúffur og hillur í stað þess að grauta í þeim í geymslukassa í von um að finna það sem leitað er eftir. Lofthæðin er næg og skáparnir það háir að lágvaxin húsmóðirin sér ekki fram á að nýta efstu hillurnar. Sagði Viktori að hann gæti hæglega geymt öll sín leyndarmál þarna efst en hann var fljótur að svara því að ætti hann leyndarmál þá myndi hann sennilega ekki fela þau í húsinu. Verð nú að kanna hvort hann hafi komið sér upp einhverri aðstöðu til þess annarsstaðar. Spurning hvort umslagið góða fari bara þarna upp og verði opnað þegar barnið er fætt til að sjá hvort ljósmóðirin hafi haft rétt fyrir sér.

P5080059 P5090070 P5090074 P5110075 P5140094

Vel á minnst. Nýjustu fréttir af kúlubúanum eftir 32. vikna sónar eru þær að það er nóg legvatn hjá því, stærðin í meðallagi miðað við meðgöngulengd, 2100g - um 8 merkur og stefnir í 14-15 merkur á 40. viku. Snýr sér með höfuðið niður en enn nóg pláss til að velta sér milli hægri og vinstri. Í þetta sinn var krílið ekki á því að láta sjá framan í sig, lág á grúfu með hendur fyrir andliti. Ytri ummerki kúlbúans verða sífellt greinilegri og eitthvað þarf móðirin að fara að spái í það að hvíla sig meira yfir daginn því það er ekki fyrr en hún leggst upp í rúm á kvöldin sem hún gerir sér grein fyrir því hversu þreytt hún er orðin og bjúgur farinn að setjast á hendur og fætur.

P5070058

Ekkert lát á ferðalögum Vestfirðinga. Ekki fyrr komin úr dekurferð til Akureyrar en lagt er í suðurferð. Tilefnið ærið því nýjasti meðlimur stórfjölskyldunnar, prinsinn í Melalind, fær nafn um helgina. Verða reyndar slegnar tvær flugur í einu höggi því á sunnudeginum er svo ættarkaffi hjá móðurfjölskyldu Viktors og ætli þriðja flugan verði ekki líka rotuð og kíkt í búðir - þá ættuð þið kannski frekar að ímynda ykkur míflugnager ")

Okkur tókst nú að vera samt eina helgi heima - hvítasunnuna sjálfa og þá afrekaði Viktor það að vinna bikar í töltkeppni sem haldin var á Fjölskyldudegi Storms - hestamannafélagsins hér fyrir vestan. Ekki verra að hann vann bikarinn á mínum hesti - þó hann hafi verið kynntur í eigu Viktor þá er hann nú samt minn. Varð nú smá sár yfir þessu en Viktor sver það af sér að hafa sagt nokkuð um það hver ætti hestinn við skráningu en sennilega hafi bara verið gert ráð fyrir því.

Fjölgar enn í fjárhúsum og aðeins eitt lamb hefur fengið nafn síðan síðast og það var hún Dúdda til heiðurs fermingarbarninu honum Dúdda sem fermdist á sunnudag. Nú fer þessu þó að ljúka og í gær voru aðeins tvær kindur eftir óbornar. Lömbin farin að skoppa um fyrir utan fjárhúsið þegar veður leyfir.

Stundum er maður nú lengi að átta sig á nýjum högum sínum. Áttaði mig á því þegar ég spurði Viktor út í mikinn fjölda Tjaldsins hér á Vestfjörðum. Miklar vangaveltur hjá mér hvort meira væri um Tjald hér á Vestfjörðum en annarsstaðar því mér finndist ég alltaf vera að sjá hann og fleiri en einn í einu. Eftir smá umhugsun þá snerist nú dæmið eiginlega við þar sem sennilega væri ég kominn á slóðir Tjaldanna sem halda sig lítið innan borgarmarka. Örugglega álíka margar Lóur á túninu heima þegar nánar er að gáð. Það eru einfaldlega fleiri fuglar í sveitinni en á grasspildum borgarinnar.

Húsmóðirin alltaf jafn myndarleg í eldhúsinu. Þið kannist ef til vill við svikinn héra en nú hefur ný útgáfa litið dagsins ljós af þessum klassíska rétti sem kallast svikinn héraungi - að mestu leiti eins og sá gamli en allur minni um sig. Hentar fínt fyrir tvo ")

Og skrítnir ferðalangar já! Ef þið fréttið af tveimur sveitalubbum á ferð milli Borgarness og Þingeyrar þá gæti verið að ég vissi deili á þeim. Þannig var að Viktor og Ragnar, bóndinn á Neðsta-Hvammi, fóru í feiknar ferð að sækja gröfu sem búið er að fjárfesta í fyrir vinnumennina. Voru nú óskup bjartsýnir þegar þeir lögðu af stað snemma morguns á þriðjudag og ætluðu sér að vera komnir heim um kvöldið. Planið var nefnilega að nýta Breiðafjarðarferjuna Baldur sem styttir leiðina til muna hvað km varðar en sparar þó lítinn tíma. Þetta tókst nú ekki alveg hjá þeim og það sem úrskeiðis fór var að blessuð grafan keyrir ekki hraðar en 30 km/klst. Ferjan fer bara eina ferð á dag svo úr þessu varð næturgisting í Stykkishólmi auk þess sem þeir skoðuðu Stykkishólm hátt og lágt á meðan þeir biðu eftir að ferjan færi.

Jæja, heyrumst að viku liðinni. Þá verða 2x400 km að baki og ljóst orðið hvaða nafn prinnsinn fær.

 Signý


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Takk fyrir pistil og mynd :)

Hlakka til að sjá ykkur

Knús og kossar - líka á bumbuna

Alfa bráðum stórfrænka

Alfa (IP-tala skráð) 16.5.2008 kl. 00:06

2 identicon

Það er aldeilis framkvæmdir í sveitinni :)  Til hamingju með skápinn. sjáumst á laugardaginn. kv. ebj

EBJ (IP-tala skráð) 16.5.2008 kl. 08:30

3 identicon

Góðr myndir og enn og aftur samgleðst ég þér yfir þessum skápum:)

Bumbubúinn þarf líka að fá einhverja hirslu ??

ma

Mamma (IP-tala skráð) 20.5.2008 kl. 20:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband