Vor í lofti

Jæja, þá held ég bara að vorið sé komið á Vestfjörðum. Nú vakna ég við fuglasöng á morgnana þó ekki sé mikið um tré eða runnan í kringum mig en mig grunar nú að fuglarnir nýti sér það að ekki er alveg búið að ganga frá húsin okkar að utan og hægt að koma sér vel fyrir í ýmsum holum og glufum. Annar vorboði sem ég er kannski ekki jafn hrifin af eru blessaðar flugurnar og ekki eykst ánægjan með þær þegar bóndinn tekur sig til og eitrar fyrir þeim þannig að allar gluggakistur eru eins og fjöldagröf - eilíft með ryksuguna á lofti til að fjarlægja þessa vorboða. Þeim er velkomið að suða fyrir utan gluggann eins og fuglunum að syngja fyrir utan en hvorugt vil ég hafa innandyra.

.....og svo eru komin lömb! Já - sauðburður er hafinn hjá fjárbóndanum Signýju. Byrjaði með tveimur hrútum í fyrra dag og svo bættist einn við í gær. Hafa þeir fengið nöfnin Hreinn, Beinteinn og Marteinn. Það rifjast nú alltaf upp fyrir mér þegar talað er um sauðburð sú gullna stund þegar ég uppgötvaði að lömb væru með nafla! Og ég er ekki að tala um þegar ég var 5-6 ára að byrja í grunnskóla - nei ég var orðin 25-26 ára og komin í háskóla. Þannig var nefnilega eitt vorið að við Hulda Þórey fórum í sveitina hennar til að vinna verkefni þar svo við gætum fylgst með fjárhúsum í byrjun sauðburðar. Í einni ferð okkar upp í fjárhús bar ein kindin þessu myndarlega lambi og þegar það stóð upp sá ég naflastrenginn hanga niður og áður en ég vissi hafði ég misst út úr mér - "nei, eru lömb með nafla!" Hulda Þórey leit nú fremur vonleysislega á mig og svaraði bara - "já, hélstu kannski að lömbin kæmu úr eggi?" Þá var ljóst að þessi upphrópun mín var kannski svolítið vanhugsuð en ég hafði hreinlega ekki spáð í þetta með naflann áður. Auðvitað vissi ég að þau kæmu ekki úr eggi en athugasemd Huldu Þóreyjar átti nú fullar rétt á sér fyrir það. Kannski er stundum gott að tala við sjálfan sig - í hljóði - og sortera svolítið það sem frá manni kemur ")

Bar það nú undir sam-bændur mína hvort við ættum að setja upp heimasíðu eins og ég sá um daginn - kindur.is - þar sem hægt væri að ættleiða kind. Snilldar hugmynd en verra að þurfa að stela henni. Var meira að segja svo frökk að leggja til að við útfærðum hugmyndina þannig að við settum upp vefmyndavél í fjárhúsin og hægt væri að kíkja þangað inn hvenær sem væri ") Hefði kannski átt að hugsa þá hugmynd líka og ræða það við sjálfa mig - í hljóði. En þetta var nú bara til að hafa gaman af!

Nú er heldur ekki ófært um heiðar og meira að segja er búið að moka Hrafnseyrarheið og verið að vinna í því að moka Dynjandisheiði. Ekki að það þyki stórfréttir á hverju heimili landsins en þetta er mikið mál á mínu heimili. Honum Viktori mínum er það mikið kappsmál að þessar heiðar séu mokaðar því þá kemst hann á skemmri tíma suður - ekki það að hann sé að fara þangað um hverja helgi en bara að vita af því að hann geti það er honum mikil hugarró! Vissulega er þetta styttri leið suður til Reykjavíkur en ekki bara það því ég held ég að Dýrfirska stoltið sé honum hamlandi þegar keyra á Djúpið - hann einfaldlega getur ekki sætt sig við að sú leið sé eina leiðin yfir veturinn. Þannig að nú eru bjartir tímar framundan hjá mínum. Aðrar leiðir eru auðvitað líka færar og nú rennur maður í vinnuna án einkabílstjórans og vegir marauðir - Gemlufallsheiðin og allt.

Hrafnseyrarheidi

Hrafnseyrarheiði þar sem stálið er hæst!

Var ég ekki búin að lofa fræðslu um Dýrafjörðinn. Í einfaldri, hlutdrægri útgáfu - örlítið smitaðri af sönnum heimamanni - þá er Dýrafjörður einfaldlega fallegasti fjörðurinn, söguslóðir Gísla Súrssonar og við hann stendur hæsta fjalla Vestfjarða - Kaldbakur 998 m hár. Skaginn milli Dýrafjarðar og Arnarfjarðar hefur fengið viðurnefnið "Vestfirsku alparnir" vegna þess hversu lítið undirlendi er á fjallstoppum, fjöllin almennt hærri og formfegurð þeirra minnir helst á hina einu sönnu Alpa (http://vesturferðir.is - Gönguleiðir í vestfirsku ölpunum). Útsýnið ólýsanlegt er mér sagt en ég hef enn ekki orðið svo fræg að ganga á fjallið en þekki hann í sjón og get vísað fólki á rétan stað. Það bíður betri tíma að ég snari mér upp á þann topp. Fyrir þá sem eru á ferðinni þá er líklegast að þeir rambi á Ísafjörð en þaðan þarf að fara í gegnum göngin, ekki beygja inn í Súgandafjörð - við hann stendur þorpið Suðureyri - heldur halda áfram og enda þá í Önundarfirði - við hann stendur Flateyri - yfir Gemlufallsheiði og í Dýrafjörðinn en þá blasir Þingeyri við. Bærinn okkar, Mið-Hvammur- stendur innar við fjörðinn og því örlítið styttra að koma til okkar en á Þingeyri.

alparnir_stor

Vestfirsku alparnir milli Dýrafjarðar og Arnarfjarðar

Látum það nægja í bili af fræðslu um Dýrafjörðinn. Á sjálf eftir að kynna mér fleiri staðreyndir og jafnvel koma mér í það að fara alla leið inn í fjarðarbotninn en þangað hef ég enn ekki komið. Verður þó að fljóta með að á Þingeyri er dýrindis sundlaug sem setur punktinn yfir i-ið á góðu ferðalag-i.

Jæja, ekki alveg að missa mig í löngum pislum þennan fimmtudaginn.

Heyrumst því bara næsta fimmtudag! Sumardaginn fyrsta ")

Signý

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Góðan fimmtudag systir sæl - reyndar föstudagur í dag en...

Hlakka gríðarlega mikið til að sjá ykkur um mánaðarmótir. Arna alsæl að geta boðið þér á tónleika - fyrstu tónleikana hennar á ever.

Luvya, Alfa

Alfa (IP-tala skráð) 18.4.2008 kl. 13:32

2 identicon

Þú bóndakonan er mikið að læra - þetta með naflann er snilldin ein. Þú heldur áfram að kynna vel fjörðinn fagra:)

Góður pistill sem fyrr.

Kveðja MA

Mamma (IP-tala skráð) 19.4.2008 kl. 22:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband