14.8.2008 | 12:53
Syndaselur
Agalegt að standa sig ekki í blogginu þegar allir bíða nýrra frétta. Hef líka miklað það fyrir mér að koma þessu öllu á blað því nú er ég alltaf að upplifa nýja - og að því mér finnst - ofur merkilega hluti.
Í stuttu máli sagt höfum við mæðgur það rosalega gott. Orðnar alveg ofurdekraðar eftir dvölina á spítalanum og fann ég mest fyrir því þegar ég þurfti sjálf - í fyrsta lagi að ákveða hvað ég átti að fá mér að borða - í öðru lagi að taka það sjálf til - og ganga frá! Ótrúlegar kröfur á mann. Komst þó fljótt upp á lagið með að redda þessu. Dásemdardísin líka komin upp á lag með það að gefa til kynna hvað það er sem hún vill. Heyrist vel á tóninum hvort um sé að ræða alvarlega svengd eða hvað - stundum vorkennir hún sér bara rosalega og það má greinilega merkja það!
Pabbinn hefur lítið haft tíma til að vera heima - svosum ekki þekktur fyrir að sitja lengi "aðgerðarlaus" og jafnan fljótur að finna sér eitthvað að gera og er þá horfinn. Ljósmóðirin sem kom til okkar í vikunni eftir að við komum heim og þekkir til kappa var nú ekkert hissa þó hann væri fjarverandi þegar hún kom. Á endanum vorum við svo bara sendar norður í land. Þar biðu auðvitað í ofvæni frænka og frænka en amman og afinn lögðu það á sig að keyra eftir okkur í Bjarkalund - ekki síður spennt að fá okkur. Viktor skutlaði okkur nefnilega í Bjarkarlund og dreif sig svo heim að bisast án þess að hafa nokkuð samviskubit yfir því að við værum einar heima. Daman var því komin tímanlega á sína fyrstu útihátíð - Ein með öllu á Akureyri. Sýndi það á þessu ferðalagi að henni líkar vel í bíl - svaf alla leið og var bara vakin til aðskipta á henni og drekka.
Fórum og kynntum nýjasta fjölskyldumeðliminn fyrir þeim elsta - ömmu í Rán. Fór vel á með þeim og sú stutta hæstánægð í fanginu á löngu. Amma notaði svo tækifærið þegar ég stóð með hana í fanginu að skoða hana á sinn hátt og leist vel á - dökki lubbinn nógu áberandi til að hún sæi hann. Samkvæmt heimildum ömmu er dásemdardísin barnabarn(abarn) nr. 30.
Viktor og Viktoría komu svo um Versló norður og skemmtu sér vel. Guðni Páll og Sonja birtust svo líka með alla sína hunda - 3 stykki - reyndar tvö sýnishorn að mínu mati - en allir gistu þeir með þeim í tjaldi!!! Viktoría naut góðs af því hversu fullorðin Arna Guðbjörg er orðin því hún skutlaðist með hana og Berglindi frænku í Tívolí - sem hinir meira fullorðnu voru ekki alveg í stuði fyrir. Rúllaði því náttúrulega upp daman sú. Eftir helgina skutust Vik og Vak svo vestur aftur en við mæðgur verðum eitthvað áfram á Akureyri. Skelltum okkur þó suður að kíkja á nýju íbúiðna hans Jóa en þau fengu afhent um mánaðarmótin. Ekki síður merkilegt tilefni að hitta hann Jökul frænda. Ég hitti hann síðast í skírninni hans en í öllum fréttum fengið að vita að drengurinn hafi stækkað helling - sem var eingin vitleysa. Hann er stór! Hjartað er þó lítið því smá öskur í litlu frænku skelfdi hann svo að hann fór að gráta. Kannski var það bara samúðarskæla. Dásemdardísin var að hitta stóra frænda í fyrsta sinn svo þetta var merkisatburður. Þriðja barnabarnið var svo með í för og því í fyrsta sinn sem sjá mátti þennan föngulega hóp saman. Auðvitað skellt í myndatöku og við nánari skoðun hafði mamma á orði að barnabörnin hennar væru ekkert lík - frekar en börnin hennar. Vísa í albúm merkt Reykjavíkurferð. Sýndi sú stutta enn og sannaði að hún kann vel við sig í bíl - svaf báðar leiðir með smá bleiuskipta-/drekkustoppi. Eins gott fyrir vestfirðing að vera vær í bíl enda langt í allar áttir!
Erum sem sagt enn á Akureyri og búið að spilla dömunni helling. Stækkar og mannast með hverjum deginum sem líður. Kinnarnar að verða vígalegar og allt sem "auga á festir" rækilega skoðað. Verður stundum alveg dauðþreytt á að horfa á alla þessa hluti í kringum sig en getur enganveginn hætt því fyrr en allt er fjarlægt og þá lognast hún útaf í vagninum. Sefur í þessum töluðu orðum óskup vært í vagninum sínum enda sýndi hún það í borgarferðinni að henni finnst vagninn bestur - óttarlega óvær þar til hún fékk að leggjast í vagninn hans Jökuls - sem er alveg eins og hennar - sofnaði þar og svaf lengi, lengi.
Segjum þetta gott í bili en látum vonandi heyra í okkur fljótlega aftur. Búin að setja inn fyrstu myndir af dömunni og frá Reykjavíkurferð. Eru til nokkrar myndir af henni!
Kveðja, Signý og fylgifiskur
Athugasemdir
Hæ Signý og innilega til hamingju með dótturina. Hún er alveg yndisleg, svo svipsterk og flott.
kveðja, Bergdís
Bergdís (IP-tala skráð) 14.8.2008 kl. 13:10
hæ hæ
Innilega til hamingju aftur. Var að stelast til að skoða myndir af prinsessunni. Hún er yndisleg. Frábært allt þetta mikla dökka hár.
kv.
Svana
Svana (IP-tala skráð) 18.8.2008 kl. 20:50
Hæ Signý
Dásemdardísin þín er alveg æðisleg, gaman að fá að skoða myndir af henni og jú þér líka.
Kveðja af héraðinu
Ásdís (IP-tala skráð) 26.8.2008 kl. 10:51
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.