10.12.2007 | 11:03
Fyrsta nóttin!
Stórtíðindi úr sveitinni! Gistum í nýja húsinu í nótt. Höfðum reyndar ráðgert að það yrði á laugardag en það var enn full mikið púss-ryk um allt til að hægt væri að flytja inn rúm og búa um. Þó lukkan fylgi laugardegi þá fylgir sæla sunnudegi og það tókst. Sunnudagur fór í þrif og lokafrágang á efstu hæð. Búið að mála, parketleggja, setja hurði og komið upp klósett, vaskur og sturta. Sópaði, ryksugaði og skúraði - öll tiltæk þvottaáhöld nýtt og mátti ekki minna vera. Efsta hæðin - þar sem svefnherbergin eru - lengst komin eða nánast fullkláruð, miðhæðin öll að koma til - þarf að þrífa, púsla inn rest af eldhúsinnréttingu, koma upp vask á klósettið en klósettið komið, jú og flísa forstofuna. Kjallarinn er síðan nánast hrár. Á enn eftir að pússa niður spartl, mála, parketleggja.
Sem sagt fyrsta nóttin í nýju húsi. Tókum rúmið okkar, rúmföt og þá fatalarfa sem við sáum fram á að nota næsta dag, tannburstann - en gelymdum tannkremi, náttfötin og svo auðvitað morgunmat sem hvorki þarnaðist mjókur, íláta né áhalda þar sem slíkt er enn ekki til staðar. Áttaði mig reyndar á því í morgun að ég hafði líka geymt öðrum skóm en skítugu vinnustrigaskónum. Við innflutninginn lentum við í smá basli með eina húsgagnið sem fylgdi okkur í þetta sinn, rúmið, því rúmbotinn komst alls ekki upp stigann. En hlutum er reddað í sveitinni ") Fengum tvo 90 sm botna til að setja undir dýnurnar okkar en þurftum reyndar að smíða fætur undir annan botninn en það var auðsótt þar sem efni og öll verkfæri voru í orðsins fyllstu merkingu "við hendina". Þegar búið var að redda þessu var sett utan um sængurnar og rúmið gert tilbúið. Síðan var farið niður í eldhús og opnuð freyðivínsflaska og skálað - á stút - ef það er hægt. Uppþvottavélin enn ótengd svo það var ekkert verið að óhreinka nein glös - sem reyndar voru heldur ekki til staðar. Svo var laggst upp í og út um gluggan blasti við stjörnubjartur himinn - ekki slæmt það. Stillt og fallegt veður og útsýnið úr svefnherberginu ólýsanlegt. Í öllu þessu myrkri var svo fallegt að horfa út á fjörðinn, sjá ljósinn á Þingeyri og stjörnurnar á himninum - gátum merkt þau fáu stjörnumerki sem við þekktum en þrátt fyrir nafnleysi voru hinar stjörnurnar alveg jafn fallegar.
Veit ekki með hjátrúnna en ég lét mér nægja að flytja inn á sunnudegi þar sem sunnudagur er til sælu. Virðist samt hafa klikkað á öllu hinu. Vaknaði í morgun að því mér fannst ósofin - fannst ég vera nýsofnuð þegar klukkan hringdi í morgun. Þegar ég mætti svo í vinnuna fékk ég að heyra að ég hefði gleymt að telja alla glugga í húsinu í huganum áður en ég sofnaði og mátti engum gleyma. Hefði átt að strá salti í hornið á herberginu og setja þar líka pening. Ætli ég hefði ekki bara verið jafn ósofin og raunin var þar sem ég hefði verið upptekin við það fram á nótt að fylgja öllum hjátrúm, svo ekki sé talað um að rifja þær upp. Taldi í morgun gluggana í húsinu og komst upp í 20 - smá munur frá því að búa í kjallaraíbúð með 3 gluggum. Gæti verið að ég þyrfti að bæta í jólaseríusafnið áður en ég fer að skreyta nýja húsið. Versla það í dag um leið og ég kaupi saltið í hornin og get svo notað afganginn í hornin með saltinu. Er samt sátt við það að þrátt fyrir léttan svefn og mikið annríki í nótt voru þetta engar martraðir. Spurning hvort ég þurfi eitthvað að semja við álfana í steininum fyrir utan áður en ég fæ góðan nætursvefn. Geri mér grein fyrir því að það eru ekki allir í kringum mig jafn sannfærðir um tilvist þeirra og spurning hvort þeir séu enn sárir eftir að keyrt var yfir litla steininn um daginn. Greyin hafa fengið að vera í friði í 40 ár og svo er nú allt í einu endalaus umferð, kerrur, rusl út um allt og bílar komandi og farandi allan liðlangan daginn. Hafa hingað til verið lausir við það á nóttunni en nú er breyting þar á. Endilega ef þið vitið hvernig ég kem til þeirra skilaboðum þá megið þið láta mig vita! Líka ef þið eruð með á hreinu hjátrú sem tengist því að flytja í nýtt hús þá endilega deilið þeim. Tek kannski eina fyrir í einu svo ég geti verið viss um áhrif hverrar og einnar.
Það verða því haldin jól í Mið-Hvammi þetta árið. Póstkassinn vonandi kominn upp til að taka á móti jólakortum - þeim sem ekki fara í Ásgarð en þau ættu nú samt að berast á endanum ") Nýja heimilisfang er Mið-Hvammur, 471 Þingeyri.
Enn engar myndir en þegar ég næ mynd af innviðum hússins sem einhvernveginn gefur góða heildarmynd þá fara þær inn. Á stundum sjálf erfitt með að sjá út hvað myndirnar sýna.
Kveðja, Signý
Athugasemdir
Nú líst mér á, þetta sá ég ekki fyrir. Ef ég væri álfur í túnfætinum hjá þér, væri ég bara glöð að fá þig sem nágranna..........en við verðum að rabba við þá. Þú sest kannski bara út og syngur fyrir þá :)
Kv. Mamma
Margrét (IP-tala skráð) 10.12.2007 kl. 12:18
Vá til lukku...
sunnudagurinn er góður dagur fyrir fyrstu nótt... við erum greinilega báðar jafn klikkaðar að flytja inní svona ótilbúin hús... en er ekki bara gaman að því.. allavega líður okkur rooosalega vel í þessu svona og viss um að það er það sama hjá ykkur.. til lukku aftur
knús og kossar út heiðinni.
Guðrún Ösp, 10.12.2007 kl. 15:05
Elsku dúlla!! til hamingju með flutninginn í fallega fjörðinn minn.....þíð fáið innflutningsgjöf þegar ég kem næst heim::))
þetta er frábært hjá ykkur,segi eins og mamma þín var ekki alveg að sjá þetta gerast en jú ég á klikk...bróðir hehhe...kveðja úr Mosó
Elva (IP-tala skráð) 10.12.2007 kl. 22:31
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.