Færsluflokkur: Bloggar

Nú gerast hlutir!

Jæja, þá er von á mömmu og pabba til að hjálpa við að mála innanhúss. Mamma búin að tala um það síðan ég flutti að hún sjái mig bara í myrkri því hana vanti að staðsetja mig í nýju umhverfi þannig að eftir helgina hef ég trú á að það birti heldur yfir þeirri mynd ") Enda er svo fallegt hér á Vestfjörðum. Veturinn kominn og undanfarna daga hefur verið bjart og kalt - sannkallað íslenskt gluggaveður. Mikið svakalega verður nú gaman að fá þau í heimsókn - þó ég geti ekki enn boðið upp á gistingu í "húsinu mínu" þá fá þau "bed & brekfast" hjá tengdó. Þingeyri virðist þannig vera að komast á kortið hjá ættingjum og vinum - frétti af óvæntri heimsókn í húsið í gær en Viktor var á kafi í vinnu þegar Siggi hennar Guðrúnar leit við - stendur náttúrulega sjálfur í húsbyggingum og hefur sennilega viljað bera saman ") Upplifa það að annarsstaðar gangi hlutirnir ekki heldur alltaf upp. Hálf fyndið að sjá bloggfærsluna hennar þar sem hún nefnir Þingeyri - Þingeyrina mína ") Reyndar eitthvað á þeim nótum að Þingeyri væri ekki nógu langt í burtu. Á eftir að ræða þetta aðeins við hana!

Það sem er að gerast í húsamálum er að búið er að steypa öll gólf, verið að leggja lokahönd á vatnslagnir, verið að ganga frá bakhliðinni á stiganum og auðvitað veggir tilbúnir undir málningu. Svo þarf náttúrulega að taka til eftir blessaða iðnaðarmennina - alveg hreint ótrúlegt hvað hægt er að rusla mikið til við vinnu. Kem vonandi inn einhverjum myndum á næstunni ef ég næ að dobbla pabba til að koma með fartölvu og kortalesara eða snúru til að ná blessuðum myndunum úr vélinn.

Stutt og laggott í dag!

 Signý


Ritstífla

Getur verið að maður fái ritstíflu þó ekki sé neinn skiladagur á skrifum? Finnst ég eiga að skrifa eitthvað og fullsnemmt að vera orðin uppiskroppa með ritefni eftir þrjár bloggfærslur. Vinnan eins og vanalega, húsbyggingar í gangi, myndir enn í Reykjavík og ekki áætlað að fara þangað á næstunni, færðin verið þokkaleg... jú ég get sagt frá einu!

Ég á þátt í því að Þingeyringar geta tekið þátt í "skyndibitamenningunni" sem tröllríður nú heiminum. Það er nú ekki á hvaða "smápleisi" sem er sem getur stært sig af því. Það er nefnilega hægt að panta hér pizzur - pizzur sem ég, ásamt fleirum, útbý frá a-ö. Ekki svona þessa heimatilbúnu heldur pizzastaðarpizzur með leyniuppskrift sem keypt var fyrir fúlgu fjár - ásamt nafninu Tóki Munkur. Það er sko ýmislegt í gangi á Þingeyri. En svona til að halda fólki í raunveruleikanum þá er nú bara opið 1 x í viku, á föstudögum. Í tvo tíma, milli kl. 18 og 20. Og þið sem voruð farin að sjá fyrir ykkur litla "skyndibitaparadís" eins og Skeifuna. Nei, það búa nú bara um 300 manns hér og a.m.k. helmingurinn hefur aldrei og mun sennilega ekki fara að taka upp á því að borða pizzu, svona á gamalsaldri. Spurning hvort sé einhver séns á því að fara að hafa opið þegar uppákomur eru á staðnum þannig að hægt sé að rölta við á leiðinni heim af djamminu en sennilega ekki eitthvað sem maður ætti að hætta í fastri vinnu fyrir ")

 Þá vitið þið það. Signý er bara ansi lagin við að gera pizzur enda gott uppeldi í heimatilbúnum pizzum sem eiga auðvitað alltaf vinninginn. Hef hugsað mér meira að segja að fyrsta máltíðin í nýja eldhúsinu verði alvöru heimatilbúin pizza.

 Nú af húsbyggingum er það að frétta að gólfin fara að verða tilbúin undir flot, eldhúsinnréttingin fer vonandi upp í þessarri viku og hægt verður að mála um næstu helgi. Þá eru bara smáatriði eftir eins og vatn og rafmagn. Megum nú ekki alveg missa okkur í velmegun. Notum bara rýmið undir útitröppunum fyrir kamarinn áfram og svo má alltaf rölta út í læk eftir smá vatni. Nei, nei þetta er allt að koma. Klára glugga, gólfefni, innréttingar á baðherbergin 3 - jú, jú píparinn aðeins að missa sig.

 Fyrir þá sem ekki hafa fengið miklar upplýsingar um það sem er að gerast þá erum við að byggja upp hús rétt fyrir innan Þingeyri. Notuðum í raun aðeins steypta útveggi og höfum því haft nóg að gera. Byrjuðum á því að bæta ofna á húsið - einum sumarbústað - eins og einhver orðaði það og því er húsið nú orðið 3 fullar hæðir, 50 fermetrar hver og plön um að bæta við bílskúr og sólstofu.

Jæja, losnaði aðeins um ritstífluna. Læta þetta því nægja í bili. Held að ég sé nú bara alveg að ná þessum "bloggfílingi".

 Þar til næst, Signý


Vetur konungur

Jæja, þá fékk mín að finna fyrir vanmætti sínum gagnvart vetri og snjó! Í gær var spáð stormi sem stóðst að mestu en þegar ég vaknaði í morgun í þessu fína veðri sá ég enga ástæðu til að efast um að fært væri yfir á Ísafjörð... > leiðrétting - er víst talað um norður á Ísafjörð < ...enda ekki nema rétt tádjúpur snjór á götum og koppalogn/svart logn/dauðalogn > vestfirsk orðasamsetning < Röllti mér því niður í rútu. Eins og við var að búast var lagt af stað við fyrsta hljóm 7 frétta á rás 1. Hafði reyndar ekki náðst í upplýsingasíma vegagerðarinnar og enginn haft spurnir af mokstursbílnum, þó talið víst að hann væir í Önundarfirði > fyrir þá sem ekki hafa komið á staðinn þá er Önundarfjörður næsti fjörður við Dýrafjörð og þarf að fara yfir Gemlufallsheiði til að komast þangað og svo í gegnum göngin til Ísafjarðar < kom svo reyndar upp úr dúrnum að maðurinn sem keyrir þennan forláta mokstursbíl býr í Önundarfirði og því ýmis merking sem leggja má í þær yfirlýsingar að hann sé í Önundarfirði...var hann enn sofandi á sínu græna eða var hann farinn af stað að moka í Önundarfirði. Allavegana, við fysta hljóm 7 frétta var lagt af stað frá sjoppunni á Þingeyri, keyrt fyrir fjörðinn, framhjá vegamótum að Núpi og farið að grilla í Gemlufallsheiðina þegar hið örlagaríka símtal barst - ökumaður og farþegi fjórhjóladrifins pallbíls höfðu við illan leik komist yfir heiðina og voru því svo elskulegir að hringja í bílstjóra rútunnar og ráða honum frá því að ætla yfir á 15 manna kálfinum enda enn ekkert spust til mokstursbílsins. Ótrúlegt hversu mikill munur getur verið á veðri frá einum stað til annars. Þegar hér var komið var bara leiðinda þæfingur og nokkuð myndarlegir skaflar á veginum. Það var því úr að snúið var við. Var nú frekar spæld þar sem ég var á leiðinni á námskeið fyrir hádegi sem ég hlakkaði voða mikið til - örlaði líka pínu á trú á samsæri þar sem aðeins viku - og ekki einu sinni það heldur á föstudaginn síðasta - komst ég ekki suður á ráðstefnu - sem ég hlakkaði voða mikið til að fara á - því ekki var flogið vegna veðurs. Þeir eiga þó ráð þessir kallar sem þekkja þetta og því bauðst mér að koma með á minni bíl sem sennilegri væri til að hafa skaflana af. Blessaðist allt að lokum enda Önfirðingurinn greinilega vaknaður og mættum honum á miðri heiðinni á mokstursbílnum. Slapp því inn á námskeið í tíma og fékk meira að segja akstur upp að dyrum ") Svo er bara að vona að ökumaður mokstursbílsins vakni tímanlega af síðdegisblundinum ef vera skyldi að þyrfti að moka heiðina fyrir heimleiðina.  Lítið að frétta af húsbyggingum nema að það verið að vinna í því. Auðvitað snjóað í skurðina fyrir rafmagnið og vatnið en spurning hvað það situr lengi. Heyrði því fleygt í útvarpinu að hitastigið væri eins og jó-jó næstu dagana, skoppaði á milli rauðra og blárra talna.  Kveðja úr snjónum á Vestfjörðum, Signý    

 


Hörkupúl

Hörkupúl þetta blogg! Áskoranir úr öllum áttum og.........má ekki bugast...........en tölvumál eru ekki upp á marga fiska eins og er en batnar nú vonandi þegar flyt í NÝJA HÚSIÐ. Er löngu hætt að hlusta á tal um að þetta klárist á þetta og þetta mörgum vikum. Ég ætla bara að flytja inn fyrir jól. Vonandi þó ekki kl. 17.58 á Aðfangadag.Því miður hefur ekkert gerst í myndamálum þar sem ekkert varð úr áætlaðri suðurferð. Blessaðir flugmennirnir treystu sér ekki til að fljúga fyrr en einsdagsráðstefnan var hálfnuð og því varla verjandi að fara. Þannig að það er óvíst hvað gerist í blessuðum myndamálunum á næstunni. Enda er ég ekki alveg að ná þessu með myndir inn á bloggsíður en það vonandi kemur.Augljóst að vetur er komin hér á vestfjörðum því það er snjóþekja yfir öllu og frostrósir á bílrúðum í morgun. En það er nú ekki málið þegar maður tekur rútuna ") Fínt að hafa svona einkabílstjóra - sem ég deili reyndar með öllum hinum líka.

 Kveðja, Signý


Nýr heimur

Þá er það orðið ljóst - orðin bloggari Shocking. Lofa því nú ekki að mikið verði skrifað og alls ekki á hverjum degi heldur aðeins eftir hentugleika. Maður er ekki maður með mönnum nema maður eigi blogg en megintilgangurinn með þessu bloggi er að upplýsa heiminn - eða að minsta kosti þá sem skilja íslensku og vita af þessarri síðu - um gang mála hér á Kjálkanum. Eins og er stend ég í stórræðum við hús-endur-byggingar og ýmsir orðnir forvitnir um ganga mála. Vantar einhvernveginn að staðsetja undirritaða í Vestfirsku umhverfi og því fá myndirnar öruggleg að tjá meira en orð. Verð nú að segja að ég er bara pínu stolt af mér að hafa stigið þetta skref að gerast bloggari. Sjáum hvað setur - hvort þetta verði fyrsta og síðasta færsla eða hvað.......Svona fyrir fróðleiksfúsa þá ætla ég að tína til myndir af mínu helsta nágrenni áður en ég fer að demba inn myndum af framkvæmdum.

 Við erum s.s. að tala um Vestfirði, nánar tiltekið Þingeyri - afskaplega lítinn og sætan bæ við Dýrafjörð. Látum myndirnar tala sínu máli

Signý


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband